Laugavegur að verða Latínuhverfi?

Í gluggum hússins við Laugaveg 56 eru skilti sem tilkynna …
Í gluggum hússins við Laugaveg 56 eru skilti sem tilkynna opnun nýs veitingastaðar í húsinu. mbl.is/Júlíus

Sífellt er meira þrengt að eigendum almennra verslana við Laugaveginn á kostnað ferðamannaverslana og veitingastaða. Gatan stefnir í að verða Latínuhverfi Reykjavíkur, en ekki verslunargata. Þekktar verslanir með alþjóðleg vörumerki vilja ekki opna verslanir sínar í slíku umhverfi. Þetta segir Gunnar Guðjónsson, kaupmaður í gleraugnaversluninni Profil-Optik og formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, segir leyfilegt hlutfall veitingastaða og verslana 50/50 á sumum hlutum götunnar. Hlutfall veitingastaða hafi verið aukið til að lyfta svæðinu upp. Hann segir litla ástæðu til að hafa áhyggjur af Laugaveginum sem aldrei hafi verið jafn líflegur og nú.

Hlutfallið farið að skekkjast

„Hér er ekkert hlúð að almennri verslun,“ segir Gunnar og á þar við þær verslanir sem ekki eru miðaðar sérstaklega að erlendum ferðamönnum. „Afstaða borgaryfirvalda til Laugavegarins byggist á því að hér verði Latínuhverfi en ekki verslunarhverfi. Samsetning verslunar er orðin ansi döpur og gatan er einfaldlega orðin of veik, hvað mannlíf varðar. Til að breyta því þurfa allt önnur sjónarmið að heyrast og fá vægi. Þegar staða götu er orðin veik er ekki skynsamlegt að hefta aðgengi að henni tvo og hálfan mánuð á ári, eins og gert hefur verið.“

Þar á Gunnar við það þegar hluta Laugavegarins hefur verið lokað fyrir bílaumferð. Það hafi verulega slæm áhrif á þá sem reka verslanir á borð við hans. Komist fólk ekki nálægt versluninni fari það einfaldega eitthvað annað. „Það sér það hver sem sjá vill; hlutfallið er farið að skekkjast allverulega. Almenn verslun er orðin undir og við taka lundabúðir og veitingastaðir. Ég er ekki með verslun við Laugaveginn vegna þess að ég sé að reyna að ná til túristanna. Ég er hérna vegna þess að ég býð upp á sérhæfða þjónustu og vöru og hef gert það í bráðum 43 ár.“

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, segist ekki hafa yfirsýn yfir hvaða starfsemi hefur komið í þau rými sem hafa losnað á jarðhæðum við Laugaveginn undanfarin ár. Að sögn Hjálmars hefur undanfarin 15 ár verið unnið eftir þróunaráætlun að breskri fyrirmynd, sem miðar að því að verja verslanir. „Það var talið nauðsynlegt á Laugaveginum og Skólavörðustíg. Í þessu felst m.a. tiltekið leyfilegt hlutfall verslana og veitingastaða á jarðhæð. Fyrst var það 70% verslanir og 30% veitingastaðir á öllum Laugaveginum. Í fyrra var þessu breytt þannig að nú er leyfilegt hlutfall 50/50 frá Barónsstíg að Snorrabraut og um miðjan Skólavörðustíginn. Það var talið geta lyft þessu svæði upp.“

Hjálmar nefnir aðra reglu sem farið er eftir til að tryggja fjölbreytta starfsemi í miðborginni. Í henni felst að þar skuli ekki vera sama starfsemi á einni húsahlið í meira en 50% húsnæðisins. „Þessi regla á að koma í veg fyrir of mikla einsleitni. Smásöluverslun er undanskilin henni, en það hefur aldrei reynt á þetta.“

Skemmtilegur og mannmargur

Hjálmar segist aðspurður ekki sjá fyrir sér að reynt verði að efla eina tegund verslana fremur en aðrar við Laugaveginn. „Borgin hefur hvorki tæki né tól til að ákveða hverskonar verslanir eiga að vera þar; hvort það eiga að vera túristabúðir eða eitthvað annað. Það er sennilega á lögfræðilega gráu svæði hvað er ferðamannabúð og hvað ekki. Verslun þarf að bregðast við breyttum tímum, mörgum finnst nú ástæða til að fagna þegar mörg hundruð þúsund erlendir ferðamenn koma til landsins.“

Gunnar segir miður hversu lítil áhrif verslunar- og fasteignaeigendur hafi á þróun Laugavegarins og er uggandi um framtíð hans. „Það er fátt annað að gera en að halda áfram að koma okkar sjónarmiðum á framfæri,“ segir hann.

Hjálmar segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af Laugaveginum. „Mér finnst hann aldrei hafa verið jafn skemmtilegur. Það hefur aldrei verið jafn mikið af fólki þarna eins og nú, það hlýtur að segja eitthvað.“

Dressman fór á brott

Gunnar segir það vera tilefni til áhyggna þegar verslanir með vinsæl alþjóðleg vörumerki vilja ekki opna verslanir við Laugaveginn og leita frekar í verslanamiðstöðvar. „Verslanir sem við sjáum í miðborgum erlendis, þær er ekki að finna hér,“ segir Gunnar og bætir við að síðasta alþjóðlega vörumerkið sem hafi opnað verslun við götuna sé Dressman. „Hún fór, m.a. vegna þess að það er óhagstæðara að reka verslun við Laugaveginn en í Kringlunni.“

Hjálmar segir litla ástæðu til að hafa áhyggjur þó slíkar verslanir kjósi að vera annars staðar en á Laugaveginum. Fjölbreytt úrval verslana sé við götuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert