Femínistafélag Íslands leggst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni. Félagið segir að barneignir séu ekki sjálfsögð mannréttindi og konur og æxlunarfæri þeirra ekki leið að markmiðum annarra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu. Þar segir að staðgöngumæðrun sé svo tilfinningalega, líkamlega og siðferðislega flókið mál að ógerlegt sé að tryggja velferð, öryggi og hagsmuni móður, barns og allra þeirra sem að ferlinu koma.
„Femínistafélagið hefur mikla samúð með fólki sem getur ekki eignast börn. Hagsmunir þeirra sem vilja eignast börn vega hins vegar minna en yfirráð kvenna yfir eigin líkama og frelsi kvenna frá kröfum um að þær vinni tilfinningaleg og líkamleg þrekvirki til að tryggja hamingju annarra,“ segir í tilkynningunni.
Þá hvetur félagið þingmenn til að leggjast frekar í það starf að auðvelda ættleiðingarferlið heldur en að heimila staðgöngumæðrun.