Brotin þaulskipulögð og ófyrirleitin

Hæstiréttur er afdráttarlaus í dómsorði í Al Thani-málinu. Hann segir að brotin hafi verið „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum.“

Margir hafa áhuga á því að lesa dóminn og hrundi heimasíða Hæstaréttar um tíma af þessum sökum vegna álags. 

Eins og fram hefur komið dæmdi Hæstaréttur Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í fimm og hálfs árs fangelsi, en dómurinn er óraskaður frá því í héraði. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi, og var dómurinn mildaður um eitt ár. Ólafur Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi hvor. 

Tjónið ekki metið til fjár

Dómur Hæstaréttar er ítarlegur og langur. Fram kemur að brotin, samkvæmt III. og IV. kafla ákæru, hafi í senn beinst að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verði tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár.

„Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.  Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum,“ segir orðrétt dómnum.

Eiga sér engar málsbætur

„Verður og að líta til þess að af broti samkvæmt III. kafla ákæru hafði ákærði Ólafur óbeina fjárhagslega hagsmuni gegnum félag, sem eins og fyrr greinir var næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur. Að þess öllu virtu og með tilliti til þess að þáttur ákærðu að brotum, sem þeir eru sakfelldir fyrir, er mismikill verður ákvörðun refsingar ákærða Hreiðars samkvæmt hinum áfrýjaða dómi staðfest, þar á meðal ákvæði dómsins um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar sem hann sætti, en ákærði Sigurður skal sæta fangelsi í fjögur ár og ákærðu Ólafur og Magnús í fjögur ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu ákærða Magnúsar kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti vegna málsins, svo sem í dómsorði greinir,“ segir ennfremur í dómnum. 

Hreiðar var sakfelldur fyrir öll brotin sem honum voru gefin að sök í ákæru, en þau felast í umboðssvikum, sbr. a. lið I. kafla og a. lið II. kafla ákæru, og markaðsmisnotkun, sbr. a. lið III. kafla og a. og b. lið IV. kafla hennar.

Sigurður er sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærða Hreiðars samkvæmt a. lið II. kafla ákæru og fyrir markaðsmisnotkun, sbr. a. lið III. kafla og a. og d. lið IV. kafla hennar.

Ólafur er sýknaður af sakargiftum aðallega um hlutdeild í umboðssvikum og til vara um hylmingu og peningaþvætti samkvæmt b. lið II. kafla ákæru, en sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. b. lið III. kafla, og fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt a. og c. lið IV. kafla ákærunnar.

Þá er Magnús sakfelldur fyrir öll brotin, sem hann er borinn sökum um í ákæru, en þau eru hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt b. lið I. kafla, hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. b. lið III. kafla, og markaðsmisnotkun samkvæmt a. lið IV. kafla hennar.

Snerist um gífurlegar fjárhæðir

„Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að umboðssvik samkvæmt I. og II. kafla ákærunnar snerust um gífurlegar fjárhæðir, en við útborgun láns, sem um ræðir í fyrrnefnda kaflanum, svaraði fjárhæð þess samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands 19. september 2008 til 4.633.000.000 króna, og lánið, sem síðarnefndi kaflinn snýr að, nam 12.863.497.675 krónum þegar það var greitt út tíu dögum síðar. Upp í lánið, sem um ræðir í I. kafla ákærunnar, greiddist 12. febrúar 2013 fjárhæð, sem eftir sama gengi og áður getur samsvaraði 2.405.707.053 krónum, en lánið, sem II. kafli hennar varðar, hefur að engu leyti greiðst. Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns,“ segir í dómi Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert