Hæstiréttur leggur línurnar

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

„Okkur sýnist að að meginstefnunni til þá hafi Hæstiréttur fallist á þau sjónarmið sem ákæruvaldið hafi tjaldað til í málinu og byggði málatilbúnað sinn á,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, um niðurstöðu Hæstaréttar í Al Thani-málinu svokallaða.

„Þessir dómar sem koma eru gríðarlega þýðingarmiklir fyrir þau mál sem eiga eftir að klárast, þannig að fordæmisgildið er mjög verulegt,“ segir Ólafur og bætir við að ljóst sé að Hæstiréttur sé að leggja ákveðnar línur varðandi það hvernig dæmt skuli í efnahagsbrotamálum.

Hæstiréttur dæmdi Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann bankans, í fjögurra ára fangelsi, Ólaf Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, í fjögurra og hálfs árs fangelsi og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, einnig í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Ólafur segir að Al Thani-málið sé eitt stærsta efnahagsbrotamál sem embætti sérstaks saksóknara hafi ákært í, en í dómi Hæstaréttar segir m.a.:

„Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.  Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum,“ segir orðrétt dómnum.

Spurður um áhrif dómsins segir Ólafur: „Þetta varðar þau mál sem við eigum ennþá eftir að taka ákvörðun um saksókn í og eins horfir héraðsdómur mjög til þess hvað það er sem Hæstiréttur ákveður í sambærilegum málum.“ 

Ennfremur segir hann, að það sé viðbúið að einhverjar breytingar eigi eftir að verða á þeim málum sem eru nú þegar í gangi, þ.e. varðandi atriði sem ekki hefur verið fjallað um með skýrum hætti áður. Það megi því búast við að horft verði á niðurstöðu dómstólsins varðandi þau atriði sem Hæstiréttur skýrir nú. 

„Þetta er örugglega dómur sem verður ræddur töluvert á næstunni,“ segir Ólafur og bætir við að hann „muni gera brautirnar skýrari varðandi framhaldið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert