Þegar atvinnugreinar eru skoðaðar þá sést að vinnumarkaðurinn á Íslandi á síðasta ári skiptist að talsverðu leyti eftir kyni. Rúmlega 42% kvenna á vinnumarkaði starfa hjá hjá fyrirtækjum eða stofnunum sem heyra undir tvær atvinnugreinar, annars vegar fræðslustarfsemi og hins vegar heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Árið 2014 unnu 21,3% af öllum starfandi konum hjá fyrirtækjum eða stofnunum tengdum fræðslustarfsemi. Af þeim sem starfa í greininni voru konur 76,8% en hlutfall karla var 23,2%. Við heilbrigðis- og félagsþjónustu störfuðu 20,9% kvenna árið 2014 sem er 81,8% af öllu starfandi fólki í greininni.
Flestir karlar, eða 15,2%, starfa við framleiðslu sem er 68,8% af öllum í greininni.
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar voru að jafnaði um 177.700 manns starfandi á vinnumarkaði árið 2014. Karlar voru 52,2% af starfandi fólki og konur 47,8%.
Þegar hlutfall starfandi fólks eftir atvinnugreinum í aðal- og aukastarfi (ÍSAT2008) er skoðað fyrir árið 2014 kemur í ljós að stærstu atvinnugreinarnar eru: Heild- og smásöluverslun 13,6%, fræðslustarfsemi 13,3%, heilbrigðis- og félagsþjónusta 12,2%, framleiðsla ýmiskonar 11,5%, rekstur gisti- og veitingastaða 6,8%, sérfræði-, vísinda- og tæknileg starfsemi 6,5%, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð 6,1% og flutningar og geymsla 6,1%.
Fjöldi starfandi í hverri atvinnugrein er samanlagður fjöldi fólks í aðal- og aukastarfi. Hver einstaklingur getur mögulega verið í fleiri en einu starfi í mismunandi atvinnugreinum. Hver og einn er þó aðeins talinn einu sinni í hverri grein. Hlutfall starfandi í hverri atvinnugrein er ekki reiknað út frá samanlögðum fjölda í atvinnugreinum heldur út frá heildarfjölda starfandi fólks á vinnumarkaði.