Leiðir ekki sjálfkrafa til verðbólgu

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Fjölmargir þættir hafa áhrif á verðlag og eru laun eflaust einn af þeim en hlutdeild þeirra er þó töluvert minni en almennt er haldið fram,“ segir Viðar Ingason, hagfræðingur VR, í grein á vefsíðu félagsins þar sem hann færir rök fyrir því að ekki sé hægt að gefa sér að hækkun launa í komandi kjarasamningum leiði óhjákvæmilega til aukinnar verðbólgu.

„Mörg dæmi eru um að það dragi úr innlendri verðbólgu í kjölfar kjarasamningsbundinna launahækkana. Ástæðan virðist alltaf vera gengisstyrking mánuðina fyrir eða eftir hækkanirnar,“ segir Viðar áfram. Þannig hafi innlend verðbólga verið neikvæð eða innan við 1% næstu tólf mánuði í átta af 16 kjarasamningum á tímabilinu 2000-2014. „Svo kann að vera að hingað til hafi kjarasamningsbundnar hækkanir verið hóflegar þó laun hafi almennt hækkað nokkuð meira en samið var um. Það breytir því þó ekki að laun hafa ekki þau áhrif á verðlag sem almennt er haldið fram. Ef svo væri ætti innlend verðbólga að vera töluvert hærri en hún er í dag á sama tíma og launavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um 6,6%.“

Viðar bendir ennfremur á að yfirleitt sé gert ráð fyrir því að framleiðni þurfi að aukast til þess að laun hækki. Margar hagfræðikenningar og rannsóknir sýni hins vegar að sambandið sé frá auknum launahækkunum til aukinnar framleiðni. „Hækkun launa getur vissulega haft áhrif á verðlag en atvinnurekendur leita oft annarra leiða til að mæta hækkun launa en að velta þeim út í verðlag. Þeir reyna til að mynda að auka afköst með því að auka starfshæfni starfsfólks og menntunarstig sem getur leitt til aukins virðisauka. Þannig eykst framleiðni eftir að laun hækka. Starfsfólk getur einnig lagt sig meira fram eftir að laun þeirra hækka þar sem nú sé meira í húfi. Þannig virka launahækkanir sem hvatning á að gera betur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert