Svo virðist sem að stöðumælagjöld í bílastæðahúsum í Reykjavík séu ekki aðeins mun ódýrari en í fjölmennari höfuðborgum á Norðurlöndunum heldur einnig umtalsvert ódýrari en í borgum af sambærilegri stærð. Gjöld í bílastæðahúsum í Uppsölum, Álaborg og Drammen verða 20-275% dýrari en í Reykjavík.
Bílastæðanefnd Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi á dögunum að hækka gjaldskrá í bílastæðahúsum bílastæðasjóðs og stækka gjaldsvæði 1. Fyrsta klukkustundin í fjórum bílastæðahúsum mun nú kosta 150 krónur í stað 80. Aukaklukkustundir eftir þá fyrstu hækka úr 50 krónum í 100.
Samkvæmt lauslegri úttekt mbl.is á gjaldi í bílastæðahúsum annarra höfuðborga á Norðurlöndunum kom í ljós að þó að borgarráð samþykki hækkunina á gjaldskránni verði það eftir sem áður allt frá 3,5 til 7 sinnum dýrara að leggja í slík stæði í Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.
Þegar litið er til skandínavískra borga þar sem íbúafjöldi er nær því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi breytist myndin. Reykjavík er ennþá ódýrasta borgin fyrir þá sem leggja í bílastæðahúsum en munurinn er 20-275%.
Mbl.is kannaði verð í bílastæðahúsum í Álaborg í Danmörku, Uppsölum í Svíþjóð og Drammen í Noregi. Lægsta verðið fannst í Álaborg þar sem verðið var 9 danskar krónur, 182 íslenskar, á fyrstu klukkustundina en svo 18 krónur, 364 íslenskar, eftir það. Þar er gjaldið því 21% hærri fyrsta klukkutímann en það verður í miðborg Reykjavíkur.
Í Drammen í Noregi er verðið frá 21-23 norskum krónum, 364-399 íslenskar krónur, á fyrstu klukkustund. Eftir staðsetningu kosta svo aukastundir 25 norskar krónur, 433 íslenskar. Fyrsta klukkustundin er því 143-166% dýrari í Drammen en í Reykjavík.
Í Uppsölum í Svíþjóð reyndist gjaldið vera 30-36 sænskar krónur, 469-563 íslenskar krónur, eftir staðsetningu. Það er 213-275% dýrara en í Reykjavík.
Fyrri fréttir mbl.is: