Niðurrif „menningarlegt slys“

Hafnarstræti 19 á að rífa og byggja nýtt á sömu …
Hafnarstræti 19 á að rífa og byggja nýtt á sömu lóðinni.

Torfusamtökin segja að ómetanleg verðmæti geti farið forgörðum verði húsið í Hafnarstræti 19 í Reykjavík rifið.

Um sé að ræða eitt af glæsilegri dæmum um íslenska steinsteypuklassík og niðurrif þess væri slys í menningarsögu borgarinnar.

Suðurhús ehf., sem eru eigendur hússins, segja að steypan í húsinu sé ónýt og því þurfi að rífa það og byggja eftirmynd þess, en hótel er fyrirhugað í húsunum við Hafnarstræti 17-19, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Húsið var byggt árið 1925, þar hefur Rammagerðin verið um árabil. Það var teiknað af Einari Erlendssyni húsameistara, sem teiknaði einnig m.a. Gamla bíó, flest húsin við Bankastræti og Esjuberg við Þingholtsstræti.

Gangi áætlanir eftir hefjast brátt framkvæmdir við nýtt hótel við Hafnarstræti sem verður innblásið af einni glæsilegustu verslun sem sögur fara af á Íslandi, Thomsens-magasíni. Hótelið nýja verður við Hafnarstræti 17-19, sem eru meðal þeirra húsa sem verslunin var í forðum daga. Húsin verða ýmist endurgerð eða rifin og byggð í upprunalegri mynd í samvinnu við Minjastofnun, að því er fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni.

Hlið hússins númer 19 verður með svokölluðu straujárnslagi. Suðurhús ehf., sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar sem oft er kenndur við Subway, á lóðirnar og sér um framkvæmdir. Hótelið verður meira en fjögurra stjarna og rekið af Icelandair hótelum í samstarfi við alþjóðlega hótelkeðju, sem ekki hefur verið með starfsemi hér á landi áður. Suðurhús munu ekki koma að rekstrinum.

Áður hefur verið greint frá fyrirhuguðum framkvæmdum, en til stóð að þær hæfust síðasta sumar. Tafir urðu af ýmsum ástæðum en nú er reiknað með að þær hefjist um mánaðamótin og að hótelið taki við fyrstu gestunum um mitt næsta ár.

Húsið metið ónýtt

Hafnarstræti 17 er alfriðað hús sem Suðurhús hyggjast endurbyggja, að sögn Smára Björnssonar, verkefnisstjóra hjá Suðurhúsum. Reisa á nýtt hús á baklóð hússins og húsið númer 19, sem hefur hýst Rammagerðina um margra ára skeið, verður rifið og reist aftur í upprunalegri mynd, m.a. með ýmsum skreytingum, en því hefur verið breytt talsvert. „Verkfræðingar mátu ástand hússins númer 19 þannig að steypan í því væri meira eða minna ónýt,“ segir Smári.

Þessi þrjú hús munu hýsa nýja hótelið. Á milli húsanna númer 17 og 19 verður Kolasundið, húsasund sem verður opið almenningi og hugmyndin er að leggja þar teina eins og þá sem kolavagnar fóru eftir forðum daga yfir Hafnarstrætið og í gegnum sundið.

 

Innblásið af glæsiverslun

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert