Samsæriskenning gengur aftur

Blíðviðri í Reykjavík. Mælingar á hitastigi eru aðlagaðar til að …
Blíðviðri í Reykjavík. Mælingar á hitastigi eru aðlagaðar til að útrýma misfærslum sem geta t.d. átt sér stað þegar veðurstöðvar eru fluttar til á milli staða, eins og gerðist í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Villa í sjálfvirkum leiðréttingum á hitastigsmælingum frá Reykjavík í gagnagrunni bandarísku veðurstofunnar var afgreidd fyrir löngu, að sögn Halldórs Björnssonar, loftslagsfræðings hjá Veðurstofu Íslands, sem áttar sig ekki á hvers vegna samsæriskenningar um fölsuð gögn skjóti aftur upp kollinum.

Árið 2012 var á bent á að tölur fyrir Reykjavík í GHCN-gagnagrunni bandarísku veðurstofunnar yfir hitastig í heiminum væru brenglaðar. Ástæða þess var sú að gagnagrunnurinn notar sjálfvirkar reikniaðferðir til að jafna út misfærslur í mæliröðum yfir langt tímabil sem geta verið tilkomnar vegna flutnings á veðurstöðvum, eins og í tilfelli Reykjavíkurstöðvarinnar.

Þeir sem efast um að hnattræn hlýnun eigi sér stað notuðu þetta misræmi í gögnum sem rökstuðning fyrir því að tölur loftslagsvísindamanna væru falsaðar til að sýna fram á meiri hlýnun en hefði í raun átt sér stað. Sú samsæriskenning hefur nú aftur skotið upp kollinum. Ein mest lesna greinin á vef breska blaðsins The Telegraph á dögunum var skoðanapistill blaðamannsins Christophers Booker þar sem hann heldur því fram að „fikt“ í hitastigsmælingum sé stærsta hneykslismál vísindasögunnar.

Þar er meðal annars vitnað til Trausta Jónssonar, veðurfræðings, sem var sagður hafa verið undrandi á bjögun GHNC á hitastigsmælingum í Reykjavík.

Aðlöguðu gögnin drógu úr hlýnuninni

„Við afgreiddum þetta fyrir svo löngu síðan að við erum svolítið hissa á að þetta sé aftur að gjósa upp núna. Þessi aðferðafræði sem GHNC notar skilar ekki góðri niðurstöðu fyrir Reykjavík. Hún er eins fyrir allar stöðvar í heiminum og hún virkar langoftast en hún klikkar hins vegar illa á nokkrum stöðum. Reykjavík er einn þeirra stöðva,“ segir Halldór Björnsson sem er verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofunni.

Slíkar „lagfæringar“ á hitastigsmælingum séu ekki óeðlilegar, enda geri Veðurstofan sjálf aðlaganir á mælingum sínum. Hann bendir á að aðrar veðurstöðvar hafi ekki farið eins út úr sjálfvirku aðferð GHNC og að hún hafi ekki haft áhrif á heildarhlýnunina. Halldór telur að tölum GHNC hafi ekki verið breytt ennþá enda sé algóriþmanum sem beitt er ekki breytt fyrir hverja og eina veðurstöð heldur aðeins fyrir allar veðurstöðvarnar í einu á nokkurra ára fresti.

Þá fer því fjarri að bjögunin sem verður á einstökum veðurathugunarstöðvum eins og Reykjavík hafi áhrif á meðaltalshita á jörðinni og valdi því að menn ofmeti hnattræna hlýnun.

„Þetta á ekki að skekkja heimsmeðaltöl svo neinu nemi. Það er alveg sama hvaða aðferð menn beita til að laga misfellur, að hún klikkar í einhverjum tilvikum. Það er mjög mikill minnihluti stöðva“ segir Halldór.

Þau áhrif sem aðlagaðar tölur hafa á þróun meðalhita eru þó heldur í hina áttina miðað við samsæriskenningar um fölsun á hlýnun jarðar. Halldór segir að aðlögun BEST-verkefnis Berkeley-háskóla hafi þannig áhrif á hnattræn meðaltöl fyrir 1940.

„Þessi áhrif eru þá þannig að samkvæmt hráu gögnunum þá hefði hlýnað meira frá því á síðustu öld en með aðlöguðu gögnunum. Aðlöguðu gögnin draga úr hlýnun á síðustu öld, þvert á það sem þeir sem telja þetta skandal vilja meina. Þeir halda því sífellt fram að þessar aðlaganir auki á hlýnunina,“ segir Halldór.

Aðlögun gagnagrunns bandarísku veðurstofunnar á hitastigsmælingum frá Reykjavík var ekki …
Aðlögun gagnagrunns bandarísku veðurstofunnar á hitastigsmælingum frá Reykjavík var ekki nógu góð. Þó ekki eins röng og mælirinn á myndinni. Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka