Ný gjaldskrá mun taka gildi fyrir þjónustu strætisvagna Strætó þann 1. mars og tekur hún við af gjaldskrá sem verið hefur í gildi frá 1. desember 2012. Stakt fargjald mun hækka úr 350 krónum í 400 krónur eða um 14% en fargjöld fyrir aldraða og öryrkja hækka um 4%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
Þar segir, að verð muni hækka til að mæta auknum kostnaði m.a. vegna aukinnar þjónustu sem hófst um áramótin. Samhliða því verði tekin upp ný nemakort fyrir 6 til 11 ára og 12 til 17 ára sem miða að því að auka þægindi og lækka kostnað barnafjölskyldna við að nýta þjónustu Strætó.
„Nemakortin verða nú í boði fyrir þrjá aldursflokka og gilda í eitt ár frá útgáfu en hingað til hefur aðeins einn flokkur verið í boði. Aldursflokkurinn 18 ára og eldri mun kosta 46.700 kr., 12-17 ára 19.900 kr. og 6-11 ára 7.900 kr. Þetta þýðir að hver strætóferð fyrir barn á aldrinum 6 til 11 ára sem fer 16 ferðir á mánuði mun kosta 41 krónu og 104 krónur fyrir aldurshópinn 12 til 17 ára. Nýju nemakortin munu því koma barnafjölskyldum vel fjárhagslega auk þess sem aukin þægindi felast í því að geta keypt kort til eins árs í stað afsláttarfarmiða með takmörkuðum fjölda ferða. Kortin munu veita aðgang að strætisvögnum Strætó á gjaldssvæði 1 og er hægt að kaupa þau á heimasíðu Strætó og fá þau send heim,“ segir í tilkynningunni.
„Ný gjaldskrá mun taka gildi þann 1. mars og munu tímabilskort, farmiðar og stök fargjöld þá hækka í verði. Stakt fargjald mun hækka úr 350 krónum í 400 krónur eða um 14% en fargjöld fyrir aldraða og öryrkja hækka um 4%. Ný gjaldskrá var samþykkt af stjórn Strætó á fundi hennar í dag. Gjaldskráin hefur verið óbreytt síðan í desember 2012 og eru breytingarnar nú í samræmi við fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2015. Verðhækkunum er ætlað að mæta almennri aukningu kostnaðar sem orðið hefur síðan 2012 og vegna aukinnar þjónustu sem kynnt var um áramótin. Breytingarnar taka til þjónustu strætisvagna Strætó en ekki akstursþjónustu fyrir fatlað fólk en þar verða engar breytingar á gjaldskrá,“ segir ennfremur.