Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá í atkvæðagreiðslu um breytingu á deiluskipulagi Rauðárholts vegna lóðar nr. 7 við Brautarholt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á miðvikudag.
Greidd voru atkvæði um umsókn Félagsstofnunar stúdenta um að íbúðum verði fjölgað í allt að 102 ásamt því að bílastæðum verði fjölgað úr 18 í 19. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur, fulltrúa Bjartar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og fulltrúa vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs Torfa Hjartarsonar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Áslaug María Friðriksdóttir sátu hjá í atkvæðagreiðslunni og lögðu fram bókun þar sem segir að ekki hafi tekist að skapa sátt um þéttingu byggðar né skapaður samráðsgrundvöllur „sem er forsenda uppbyggingar í eldri hverfum,“ segir í bókun þeirra.
„Óánægja íbúa og fyrirtækja í nágrenninu hefur komið skýrt fram á fyrri stigum þessa máls. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa flutt tillögur í borgarstjórn og í umhverfis og skipulagsráði um að komið verði til móts við ábendingar íbúa til dæmis með stefnu um heildarlausnir í bílastæðamálum. Þessar lausnir hafa ekki verið kynntar fyrir fulltrúum Sjálfstæðisflokksins né ræddar í Umhverfis- og skipulagsráði,“ segir í bókuninni. Þar segir ennfremur að fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiði ekki atkvæði með því að setja framlagða tillögu í auglýsingaferli þar sem þurfi „miklu meira samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila áður en lengra er haldið.“
Guðfinna Jóhann Guðmundsdóttir, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat einnig hjá við afgreiðsluna og bókaði að hún greiddi ekki atkvæði með tillögunni „þar sem bílastæðavandi í hverfinu samhliða þéttingu byggðar hefur enn ekki verið leystur þrátt fyrir áhyggjur íbúa og hagsmunaðila,“ líkt og segir í bókun Guðfinnu.