Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að greiða fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar, Sigurði Vali Ásbjarnarsyni, 11,6 milljónir króna í starfslokasamning.
Þetta kemur fram á vefnum Héðinsfjörður.is og í fundargerð bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá því á miðvikudag.
Sigurður Valur óskaði eftir að láta af störfum sem bæjarstjóri sveitarfélagsins af persónulegum ástæðum í síðasta mánuði. Hann hafði verið bæjarstjóri Fjallabyggðar frá árinu 2010.
Í tilkynningu kom fram að starfslokin væru gerð í fullri sátt við bæjarstjórn.
Gunnar Ingi Birgisson hefur tekið við sem bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Í fundargerð bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá því á miðvikudag kemur fram að sex bæjarfulltrúar hafi samþykkt starfslokasamninginn.
Helga Helgadóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi hins vegar atkvæði á móti. Hún lét bók að fyrirliggjandi starfslokasamningur við fráfarandi bæjarstjóra væri ekki í samræmi við bókun meirihluta bæjarráðs frá 23. janúar 2015.
„Eins og samningurinn liggur hér fyrir samræmist hann heldur ekki uppsagnarákvæðum ráðningarsamnings hans eða almennum grundvallarreglum vinnuréttar. En samkvæmt starfslokasamningi þessum sagði fráfarandi bæjarstjóri upp störfum að eigin frumkvæði af persónulegum ástæðum og lét af störfum 1. febrúar samkvæmt samkomulagi. Í slíkum tilfellum, þar sem starfsmaður segir upp og óskar eftir því að vinna ekki uppsagnarfrest, ber vinnuveitanda ekki skylda til þess að greiða honum laun á uppsagnarfresti eins og hér er lagt til. Um háa upphæð er að ræða, heildarkostnað upp á rúmlega 11,6 millj. sem ég tel að nýta mætti í þágu íbúa Fjallabyggðar,“ segir ennfremur í bókuninni.