Hefur ekki áhyggjur af loðnugöngum

Loðnuskip að veiðum við Þorlákshöfn á síðasta ári.
Loðnuskip að veiðum við Þorlákshöfn á síðasta ári. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segist ekki eins sannfærður og aðrir um að verulegar áhyggjur þurfi að hafa af breyttu göngumynstri loðnu við landið.

„Loðnan sem er útaf Norðurlandinu er að færa sig vestar og vestar með Norðurlandinu og loðnan er komin upp að Austurlandinu sem er bara þessi hefðbundni tími. Hún mun líklega birtast um miðja næstu viku og þetta verður mjög svipað held ég,“ segir Binni.

Loðnan tók krók í Skagafjarðardýpi

Helgi Geir Valdimarsson, skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE, tekur undir með Binna. Hann segir útlitið ekki eins slæmt og hefur verið sagt í fjölmiðlum síðustu daga.

„Loðnan er að ganga suður með Austfjörðum. Þar eru bátar að fylgja þessu eftir,“ segir Helgi en Sighvatur var á leið til Vestmannaeyja að landa þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum. Hann reiknar með að haldið verði austur í næsta túr.

Aðspurður um göngumynstur loðnu útaf Norðurlandi segir hann að sennilega sé um að ræða vestangöngu, líkt og göngumynstrið er kallað.

„Hún hefur tekið smá krók í Skagafjarðardýpi áður en hún fór að færa sig vestur eftir aftur,“ segir Helgi og bætir við að tíðarfar sé búið að vera leiðinlegt að undanförnu.

„Það hefur sett strik í þetta líka.“

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert