Búið er að gera veg hafnarmegin með eystri brimvarnargarðinum við Landeyjahöfn. Einnig var byggður útsýnispallur við höfnina. Þá var flóðvarnargarður Markarfljótsmegin færður nær sjónum.
Í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur Einarsson, framkvæmdastjóri Þjótanda, að verkið hefði hafist í september s.l. og því lokið laust eftir síðustu áramót.
Byrjað var á að grafa upp flóðvarnargarðinn sem var kominn á kaf í sand, en fjaran hefur færst langt út á þessum kafla, að hans sögn. Ólafur segir að gerð aðkomuvegarins eftir eystri brimvarnargarðinum hefði oft gengið erfiðlega vegna slæms veðurs og brims í höfninni.