Borgarbókasafnið í Gerðubergi og í Grófinni buðu upp á föndursmiðju í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélagið í Gerðubergi í gær. Krakkar á öllum aldri fengu leiðsögn við að sauma litla, skrautlega öskupoka, í tilefni af öskudeginum næsta miðvikudag, og þá fengu þeir jafnframt að útbúa ekta bolluvendi.
Hægt var að velja um tvær mismunandi gerðir af bolluvöndum. Annars vegar þessa sígildu úr kreppappír og hins vegar bolluvendi sem eru búnir til úr pappadiskum og skreyttir eftir kúnstarinnar reglum.
Þeir siðir tíðkuðust til skamms tíma að flengja foreldrana að morgni bolludags með bolluvendi og segja „bolla, bolla“ og fá jafnmargar bollur að launum. Einnig var vinsælt að hengja öskupoka aftan á bak einhvers, án þess að hann yrði þess var.