Barði börn sín og hótaði þeim

Hæstiréttur hefur staðfest nálgunarbann yfir karlmanni sem um langt skeið hefur lagt hendur á barnsmóður sína og börn þeirra. Rétturinn telur að friðhelgi þeirra verði ekki verndaður með öðrum og vægari hætti.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að það voru barnaverndaryfirvöld sem kröfðust þess að maðurinn sætti nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni, syni þeirra og dóttur.

Með kröfu barnaverndar fylgdi greinargerð þar sem greint var frá afskiptum af fjölskyldunni og tilkynningum sem barnavernd hefðu borist vegna hennar. Um er að ræða nokkuð langa sögu þar sem margsinnis hefur verið tilkynnt um ofbeldi af hálfu mannsins í garð konunnar og barnanna.

Meðal annars kemur fram í greinargerðinni að konan hafi greint barnaverndaryfirvöldum frá því í nóvember og desember 2010 að hún væri kúguð og hefði þurft að sæta langvarandi ofbeldi af hálfu mannsins. „Þá hafi hún greint frá ofbeldi varnaraðila gagnvart börnum sínum, B og C og að B hafi komið blóðugur og marinn úr umgengni hjá varnaraðila. Þá hafi hún borið um að varnaraðili hafi hótað börnunum og sagt þeim að ef þau segðu frá yrði móðir þeirra sett í fangelsi,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.

Lifa í stöðugum ótta

Starfsmenn barnaverndar hafi rætt við konuna og börnin í janúar 2015. Í viðtölunum hafi þau greint frá líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu mannsins gagnvart þeim öllum, en jafnframt kynferðisofbeldi gagnvart konunni. Þau hafi einnig greint frá miklum ótta gagnvart honum.

„Af gögnum málsins sé ljóst að bæði lögregla og barnaverndaryfirvöl hafi margítrekað síðastliðin ár haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar. Þá beri gögnin það með sér að gripið hafi verið til margskonar aðgerða af hálfu barnaverndaryfirvalda, en þrátt fyrir það hafi brotaþolar, A, B og C, borið um að lifa í stöðugum ótta við varnaraðila og að hafa orðið fyrir miklu ofbeldi af hans hálfu,“ segir í rökstuðningi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Á báðum dómstigum var fallist á rökstuðning lögreglustjórans og staðfest ákvörðun þess efnis að manninum væri gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt væri bann við því að hann kæmi á eða í námunda við heimili konunnar og barna þeirra, á svæði sem afmarkaðist við 50 metra radíussvæði umhverfis heimili þeirra, mælt frá miðju hússins.

Einnig að lagt væri bann við því að hann veitti þeim eftirför, nálgaðist þau á almannafæri, hringdi í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setti sig á annan hátt beint í samband við þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert