Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur sent Frank Jensen borgarstjóra Kaupmannahafnar samúðarkveðju vegna voðaverkanna sem framin voru þar á laugardag. Dagur verður viðstaddur minningarathöfn vegna atburðanna í Kaupmannahöfn í kvöld.
Í samúðarkveðjunni frá Reykjavíkurborg segir: „Við verðum að standa saman um opið og frjálst lýðræðisskipulag – og gegn því tilgangslausa ofbeldi sem birtist okkur á laugardaginn var. Hugur okkar er hjá íbúum okkar gömlu vinaborgar, fórnarlömbum árásarinnar, ættingjum þeirra og vinum.
Minningarathöfnin hefst klukkan átta í kvöld á Gunnar Nu Hansen torgi á Austurbrú. Allar opinberar stofnanir í Danmörku flagga í hálfa stöng í dag og búist er við miklum mannfjölda á athöfnina. Forsætisráðherra Danmerkur og aðrir ráðherrar Danmerkur verða viðstaddir athöfnina.