Lánið veitt tveimur vikum eftir brotin

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Árni Sæberg

Kaupþing tilkynnti um að sjeikinn Al-Thani hefði keypt hlut í bankanum um tveimur vikum áður en Seðlabankinn veitti bankanum 500 milljóna evra lán rétt áður en neyðarlögin voru samþykkt. Fjármálaráðherra vill láta kanna bótarétt ríkisins vegna lánsins í ljósi dóms yfir yfirmönnum bankans.

Hæstiréttur sakfelldi fjóra fyrrverandi stjórnendur og eigendur Kaupþings í síðustu viku fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Al Thani-málinu svonefnda. Viðskiptin, sem sérstakur saksóknari taldi sýndarviðskipti, voru gerð opinber 22. september árið 2008. Tæpum tveimur vikum síðar, 6. október, lánaði Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljónir evra gegn veði í danska bankanum FIH. Þremur dögum síðar, 9. október, féll bankinn.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagðist á Alþingi í dag telja að skoða ætti mögulega skaðabótakröfu ríkisins á hendur slitabúi Kaupþings þar sem lánið hafi átt sér stað um svipað leyti og brotin í Al Thani-málinu voru framin.

Lán Seðlabankans til Kaupþings var veitt til þess að bjarga bankanum úr þeirri blindgötu sem hann hafði ratað í með dótturfélag sitt í Bretlandi, Kaupþing Singer & Friedlander. Ekki tókst hins vegar að bjarga því frá vanskilum og leiddi það á endanum til þrots móðurfélagsins Kaupþings.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur ennfremur fram að 2. október lánaði Seðlabankinn Kaupþingi einnig 73 milljónir evra fyrirhugaðrar aðkomu Kaupþings að Sparisjóði Mýrasýslu, sem átt hafði í nokkrum fjárhagserfiðleikum, og 200 milljónir norskra króna með svokölluðum spot-samningi 8. sama mánaðar.

Fyrri frétt mbl.is: Skoði skaðabótamál vegna Al Thani-dómsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert