Þrír þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að tryggja „að skattrannsóknarstjóri leggi mat á þau erlendu gögn um skattundanskot íslenskra borgara sem embættinu hafa verið boðin til kaups og annast kaup á þeim telji skattrannsóknarstjóri það rétt. Jafnframt lýsir Alþingi vilja sínum til að tryggja fjárheimildir til slíkra kaupa enda liggi fyrir greinargerð um kostnað og mögulegan ávinning af upplýsingunum.“
Þingmennirnir eru Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, og Ögmundur Jónasson, þingmaður hans. Í greinargerð er lýst furðu vegna samskipta Bjarna Benediktssonar, fkármála- og efnahagsráðherra, við Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra. „Í ljósi þess vandræðagangs sem upp er kominn er fyrirliggjandi þingmáli ætlað að stuðla að því að afstaða og vilji Alþingis í þessu brýna máli komi fram og skattrannsóknarstjóra verði heimilað að gera það sem gera þarf til að annast kaup á umræddum upplýsingum ef ástæða þykir til að láta verða af þeim.“