Þrjú ár frá voveiflegum atburði í sömu götu

Karlmaðurinn sem lést af völdum stungusára á heimili sínu í Hafnarfirði á laugardag bjó nokkrum húsum þar frá sem kona var stungin til bana fyrir þremur árum. Unnusti hennar var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir verknaðinn.

Eins og fram hefur komið er kona á sextugsaldri í gæsluvarðhaldi vegna mannslátsins um helgina. Hún var handtekin í heimahúsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði á laugardag, en í íbúðinni fannst sambýlismaður hennar og var hann látinn þegar komið var á vettvang, um miðjan dag. Á manninum, sem var um fertugt, var stungusár, en grunur leikur á um að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Málið minnir sumpart á annað sem kom upp í febrúar fyrir þremur árum, ekki síst þar sem það gerðist við sömu götu. Þá stakk ungur maður unnustu sína til bana með eggvopni. Hlífar Vatnar Stefánsson játaði fyrir dómi að hafa orðið unnustu sinni að bana á heimili föður síns við Skúlaskeið í Hafnarfirði á tímabilinu frá síðdegis á fimmtudeginum 2. febrúar 2012 til hádegis föstudaginn 3. febrúar. Sökum vímuefnaneyslu var ekki hægt að tímasetja manndrápið frekar.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Hlífar Vatnar í sextán ára fangelsi og staðfesti Hæstiréttur þann dóm í janúar 2013.

Rannsókn á mannslátinu um helgina er í fullum gangi en ekki hefur verið upplýst hvað fram hefur komið í yfirheyrslum yfir konunni.

Fréttir mbl.is um mannslátið:

Konan úrskurðuð í gæsluvarðhald

Ákvörðun um gæsluvarðhald í dag

Lést af völdum hnífstungu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert