Stjórn Bandalags þýðenda og túlka furðar sig á ummælum Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, sem höfð eru eftir henni í Fréttablaðinu í dag. Þar sagði hún að nota ætti „mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana“. Þýðendur segja vegið að heiðri og fagmennsku þeirra þýðenda sem starfa fyrir Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins.
„Þýðing á tilskipunum, reglugerðum og reyndar öllum texta sem hefur lagalegt gildi er gríðarleg nákvæmnisvinna þar sem frjálsleg túlkun á ekkert erindi. Stjórn ÞOT bendir á að hugtakanotkun og málfar í EES-gerðum byggist ekki á geðþóttaákvörðunum þýðanda eða annarra hverju sinni heldur hugtakagrunni sem hefur verið byggður upp af miklum metnaði í nokkra áratugi og kostað þrotlausa vinnu. Gæðaeftirlit Þýðingamiðstöðvarinnar er rómað og þeir þýðendur sem hafa sérhæft sig í þessum vandasömu þýðingum eiga heiður skilið en ekki hnútur frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands,“ segir í ályktun stjórnar ÞOT.
Þá harmar stjórn Bandalags þýðenda og túlka það vanmat á störfum þýðenda sem fram komi í orðum Sigrúnar og lýsir yfir fullum stuðningi við Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins og starfsfólk hennar.