Niðurstaða útkomuspár fyrir yfirstandandi rekstrarár sveitarfélaga landsins er heldur verri nú en fyrir ári.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, niðurstöðuna þó ekki koma á óvart.
„Sambandið tekur saman upplýsingar einu sinni á ári um rekstur sveitarfélaganna og við sjáum að útkoman í ár er nokkru verri en frá árinu á undan. Niðurstaðan kemur okkur þó ekki á óvart þegar haft er í huga að gengið var frá stórum kjarasamningum á síðasta ári, t.d. við grunnskóla- og tónlistarkennara en grunnskólinn er stærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna. Kjarasamningarnir á síðasta ári þyngja því róðurinn hjá mörgum sveitarfélögum, sér í lagi þeim minni þar sem grunnskólinn er stærra hlutfall í rekstri sveitarfélagsins.“