Engar skipulagðar blekkingar og svik

Samsett mynd/Eggert

Ekkert bendir til þess að beitt hafi verið með skipulögðum hætti blekkingum og svikum til hagsbóta fyrir erlenda kröfuhafa á kostnað ríkisins og einstaka skuldara þegar nýju bankarnir voru settir á fót eftir bankahrunið né að farið hafi verið á svig við lög.

Þetta kemur fram í skýrslu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um ásakanir Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi stjórnarformanns BM Vallár, í garð þáverandi stjórnvalda vegna þess hvernig staðið var að skiptingu eigna og skulda á milli nýju og gömlu bankanna. Við endurreisn bankanna þriggja hafi ríkissjóður lagt til 190 milljarða króna í formi hlutafjárframlaga og víkjandi lána. Líklegt sé miðað við stöðuna í dag að ríkissjóður geti fengið allt það fé til baka og rúmlega Það. Virðisaukinn hafi styrkt fjárhagslega stöðu bankanna og þannig tryggt fjárfestingar ríkisins í þeim. Því megi ætla að umrædd útgjöld hafi í eðli sínu verið fjárfestingar sem skili sér til baka með góðri ávöxtun.

Frétt mbl.is: Stórfelld svik og blekkingar

Frétt mbl.is: Vísa ásökunum um lögbrot á bug

„Þegar horft er til baka yfir sviðið má örugglega benda á einhver mistök í ferlinu við endurreisn bankanna þriggja og annað sem mátti betur fara, svo sem í starfsemi nýju bankanna við endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja. En það er auðveldara um að tala en í að komast þegar allt bankakerfið hrynur á einu bretti eins og gerðist í byrjun október 2008. Enginn var viðbúinn svona fordæmalausum aðstæðum á fjármálamarkaði. Þótt neyðarlögin hafi reynst góð svo langt sem þau ná var lagaramminn og umgjörðin öll mjög takmörkuð og rennt var nokkuð blint í sjóinn við það gríðarlega erfiða verkefni að halda greiðslumiðlun gangandi, reisa við bankakerfið og endurskipuleggja skuldir einstaklinga og atvinnulífs,“ segir í skýrslunni.

Forsendur ákvarðana eftir sem áður skoðaðar

Hins vegar hafi tekist að tryggja hagsmuni ríkissjóðs með viðunandi hætti þótt hugsanlega hafi verið hægt að gera betur í þeim efnum. „Þá tókst að byggja upp trausta banka með góða eiginfjárstöðu. Þeir fjármunir sem ríkið lagði til þeirra eru tryggðir og ríkissjóður hefur engum fjármunum tapað í eiginlegum skilningi. Hefði sú leið verið farin að ríkið eignaðist alla bankana og hefði gefið út skuldabréf til slitabúanna væri skuldastaða ríkissjóðs nokkur hundruð milljörðum verri og þjóðin ófær um að afla gjaldeyris til greiðslu útgefinna skuldabréfa nýju bankanna til slitabúanna. Hefði slíku ráðslagi fylgt gífurleg áhætta fyrir þjóðarbúið.“

Brynjar telur eftir sem áður að mikilvægt sé að skoða hvort þær ákvarðanir sem teknar voru við endurreisn bankanna, sem varðað hafi mikla hagsmuni þjóðarinnar, hafi verið teknar með eðlilegum hætti. „Þótt skýrsluhöfundur sjái ekki merki þess að við endurreisn bankanna þriggja hafi verið beitt svikum og blekkingum eða að með vísvitandi hætti hafi verið farið á svig við lög, er eðlilegt að skoðað verði, að minnsta kosti að einhverju leyti, hvort veigamiklar ákvarðanir hafi í öllum tilvikum verið eðlilegar á þeim tíma sem þær voru teknar og hvort málefnaleg sjónarmið hafi alltaf legið þar að baki.“

Skýrsla Brynjars Níelssonar

Brynjar Níelsson alþingismaður.
Brynjar Níelsson alþingismaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka