„Fólk er tilbúið að fara í hart“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

„Fjörtíu og fimm kjarasamningar renna út þann 28. febrúar nk. Það horfir ekki vel því viðhorfið í atvinnulífinu er það að allt fari á hliðina ef lægstu launin hækka,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag.

Í umræðum um störf þingsins sagði hún þetta ekki þýða að þeir sem hafa lægstu launin muni fylgja þessu eftir með átökum, en þó velti hún fyrir sér aðkomu hins opinbera. 

„Sveitarfélögin hafa verið að borga frekar illa og formaður BSRB hefur haft orð á því að mjög sterk láglaunastefna sé rekin af hálfu sveitarfélaganna,“ sagði hún. Það sem hafi snert fólk hvað mest sé hækkun matarskattsins, tekjuskattsbreyting, húsnæðismálin, sjúklingagjöldin og svo mætti lengi telja. 

„Allt þetta hefur gert það að verkum að fólk er tilbúið að fara í hart,“ sagði hún. „Það sættir sig ekki lengur við það að vera sagt að allt fari á hliðina og hér fari verðbólga af stað ef lægstu launin hækka - á sama tíma og stór fyrirtæki borga stjórnendum og millistjórnendum há laun og arður er tekinn út úr greinum eins og fiskveiðinni og öðrum auðlindum sem við hér eigum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert