Náttúrupassi skemmi samkeppnisstöðu Íslands

Ferðamenn á Þingvöllum. Fjölmargir hafa gert athugasemdir við frumvarp um …
Ferðamenn á Þingvöllum. Fjölmargir hafa gert athugasemdir við frumvarp um náttúrupassa. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Eðlileg krafa er að ríkið láti lítinn hluta af þeim miklu skatttekjum sem ferðamenn skila í uppbyggingu og viðhald í stað þess að bæta enn meiri álögum á ferðamenn sem koma til Íslands með náttúrupassa og vinna þannig að því að skemma samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastaðar, að mati stjórnar Ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar. 

Í ályktun sem stjórn samtakanna samþykkti 10. febrúar vegna frumvarps iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa segir að það hljóti að skjóta skökku við að nauðsynlegt sé að innheimta viðbótartekjur af ferðamönnum og íbúum þessa lands til að sinna viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða þegar skatttekjur af ferðamönnum eru í sögulegu hámarki og koma til með að hækka enn meira á næstu árum vegna hækkunar virðisaukaskatts og vegna þess að undanþágur ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja verða felldar niður um næstu áramót.

Gert sé ráð fyrir að auknar skatttekjur komi til með að skila á bilinu 3.000-5.000 kr í ríkissjóð af hverjum ferðamanni og því má reikna með að það verði á bilinu 3-5 milljarðar kr. Þá sé talið að fjárþörf í uppbyggingu og viðhald sé um einn milljarður króna.

„Þannig hlýtur það að teljast eðlileg krafa að ríkið láti lítinn hluta af þeim miklu skatttekjum sem ferðamenn skila í uppbyggingu og viðhald í stað þess að bæta enn meiri álögum á ferðamenn sem koma til Íslands og vinna þannig að því að skemma samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastaðar,“ segir í ályktuninni.

Í ljósi þessa mótmælir stjórn Ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar frumvarpi um Náttúrupassa sem nú er til umræðu á Alþingi. Ferðaþjónusta á Íslandi hafi gegnt lykilhlutverki í að bæta hag þjóðarinnar eftir hrun og síðustu ár hafi hún drifið áfram hagvöxt. Nú sé ferðaþjónusta orðin sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur á Íslandi.

„Það hefur verið fjallað um að margar leiðir komi til greina og flestar þeirra eru mun skynsamari en frumvarp um Náttúrupassa. Þar má helst nefna komugjöld en sýnt hefur verið fram á að sú leið er fær. Einnig má nefna bílastæðagjöld og salernisgjöld sem þykja mjög eðlileg í mörgum nágrannalöndum okkar,“ segir ennfremur í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert