Segir Dag spilla friði í Rögnunefndinni

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eigi að segja sig frá Rögnunefndinni svonefndu. Hann hafi rofið þá sátt sem ríkt hefur um störf nefndarinnar og að hann sé friðarspillir.

Á borgarstjórnarfundi í dag er til samþykktar framkvæmdaleyfi vegna uppbyggingar Hlíðarendasvæðis sem þýðir að uppbygging hefst þar fljótlega. Í pistli á vefsvæði sínu segir Marta að Degi B. Eggertssyni sé að takast ætlunarverk sitt að loka neyðarbrautinni svonefndu og koma flugvellinum úr Vatnsmýrinni þrátt fyrir að Rögnunefndin sé enn að störfum og þrátt fyrir að innanríkisráðherra hafi ítrekað það í lok árs 2013 að flugbrautinni verði ekki lokað eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbrautin verði tekin úr notkun meðan Rögnunefndin er enn að störfum.

„Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Dagur B. situr einmitt í nefndinni og ætti að vera fullkunnugt um það samkomulag sem gert var um störf hennar. Með ákvörðun sinni hefur hann rofið þá sátt sem ríkt hefur um störf nefndarinnar og ætti því að segja sig frá henni,“ segir Marta.

Borgarstjórnarfundur hefst klukkan 14 í dag og má horfa á hann í beinni útsendingu á vefsvæði Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert