Veðrið heldur áfram að angra

Hjólagarpur í hríðarbyl.
Hjólagarpur í hríðarbyl. mbl.is/Golli

Höfuðborgarbúar skulu búa sig undir leiðindaveður, þótt skaplegt hafi verið framan af morgni. Sunnan og vestanlands er í kvöld reiknað með hríðarveðri og skafrenningi frá skilum nýrrar lægðar sem gengur yfir. Í kjölfarið hlánar og má því búast við leysingu og vatnsaga í nótt og fyrramálið.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar má búast við hríðarveðrinu sunnan og vestanlands í kvöld en síðar meir einnig fyrir norðan og austan.

„Einkum er reiknað með að hríðarkófið verði blint á leiðinni austur fyrir fjall frá því upp úr kl. 18 og fram undir miðnætti. Á láglendi hlánar og með leysingu og vatnsaga í nótt og fyrramálið. Þá má gera ráð fyrir vindhviðum, 30-40 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli frá um klukkan 18 til 22.

Veðurvefur mbl.is

Færð og aðstæður

Það er hálka eða snjóþekja á Suður- og Suðvesturlandi og gengur á með éljum. Hálka og éljagangur er á Reykjanesbraut. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og Þrengsli. Hálka og skafrenningur er á Suðurstrandarvegi.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka á vegum. Þæfingur frá Brjánslæk að Klettshálsi.

Á Norðvesturlandi eru hálkublettir en þó er hálka á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði en hálka og skafrenningur á Þverárfjalli. 

Á Norðausturlandi eru vegir að mestu greiðfærir en eitthvað er um éljagang.

Um austanvert landið eru vegir víðast hvar auðir en þó eru hálkublettir á fjallvegur á  Fagradal.

Hálkublettir og snjóþekja er með suðausturströndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert