Hlutfall háskólamenntaðra meðal atvinnulausra hefur hækkað og þá sérstaklega hjá háskólamenntuðum konum.
Þetta kemur fram í greiningu Ara Skúlasonar, hagfræðings í hagfræðideild Landsbankans. „Þetta er merkileg þróun og í andstöðu við það sem maður gæti haldið, sérstaklega þegar horft er til þess að þátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur aukist mikið,“ segir Ari í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Atvinnulausu fólki með háskólamenntun hefur einungis fækkað um 30% á sama tíma og atvinnulausum með grunnskólapróf hefur fækkað um 60% og fækkun fólks með iðnmenntun er um 70%. Atvinnulausum konum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um 43% en atvinnulausum konum með háskólamenntun fækkaði minna eða um 24% frá 2010.