Frumvarp um stjórn sjávarútvegsmála verður ekki lagt fram á þessu þingi. Þetta staðfestir Sigurður Ingi Jóhannesson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fréttavef Ríkisútvarpsins. Haft er eftir honum að þó allir stjórnmálaflokkar séu væntanlega sammála um að þjóðin eigi auðlindina í hafinu hafi ekki náðst samkomulag um það hver fari með forræði kvótans.
„Ég held að allir flokkar séu sammála um að þjóðin eigi auðlindina, ágreiningurinn snýst um hver fer með forræði á kvótanum, þar höfum við ekki náð því miður niðurstöðu, hvorki milli stjórnarflokkanna né inni á þingi og þannig er staðan,“ sagði ráðherrann. Skýrt væri í hans mati að ríkið ætti að fara með forræði kvótans. Frumvarp um stjórn fiskveiða yrði því ekki lagt fram nema forsendur breytist. Hins vegar yrði frumvarp um veiðigjöld lagt fram við fyrsta tækifæri.