Reyknesingar líða fyrir stöðuna

Frá íbúafundi í Reykjanesbæ þar sem áætlun til að laga …
Frá íbúafundi í Reykjanesbæ þar sem áætlun til að laga fjárhagsstöðu sveitarfélagsins var kynnt í haust.

Íbúar Reykjanesbæjar eru þeir sem líða fyrir það að sveitarfélagið hafi nánast verið keyrt í þrot og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga virðist ekki hafa gert nógu skýrar kröfur um breytingar á rekstrinum. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og málshefjandi sérstakrar umræðu á Alþingi um fjárhagsstöðu bæjarins.

Reykjanesbær er skuldugasta sveitarfélag landsins en í máli Oddnýjar kom fram að hallarekstur hafi verið viðvarandi þar frá 2002 til 2014 samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG. Nú hafi sveitarstjórnin ráðist í sóknaráætlun til að rétta fjárhagsstöðuna við en það kalli á erfiðar ákvarðanir sem komi niður á íbúum og starfsmönnum bæjarins.

Vakti Oddný á ábyrgð eftirlitsnefndar sveitarfélaga á stöðunni. Áætlanir sem sveitarstjórnarmenn lögðu fyrir nefndina hafi verið langt frá því að vera í samræmi við niðurstöður ársreikninga.

„Íbúar bæjarins munu nú finna fyrir afleiðingum þess að ekki var tekið á vanda sem safnast hafði upp. Stjórnendur bæjarins gripu ekki til ráðstafana til að stöðva þessa slæmu þróun heldur gáfu frekar í en hitt. Eftirlitsnefndin virðist ekki hafa gert nógu skýra kröfu um breyttan rekstur,“ sagði Oddný.

Bera ábyrgð á eigin fjármálum

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, var til svara fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og sagði fjármál Reykjanesbæjar hafa lengi verið til umfjöllunar hjá eftirlitsnefndinni. Vandinn sé meðal annars tilkominn vegna fjárfestinga sem bærinn hafi ráðist í með þeim væntingum að þær myndu skapa mikil tækifæri. Þær hafi hins vegar ekki skilað því sem vænst var og því hafi fjárfestingarnar orðið þungur baggi á bænum. Þá hafi menn ef til vill ekki áttað sig á hversu stórkostlegar sumar aðrar áskoranir bæjarins hafi verið, eins og brotthvarf bandaríska hersins.

„Menn geta auðvitað haft á því ólíka skoðun hvort að eftirlitsnefndin hefði átt að leggja til harðari úrræði, svo sem að láta fara fram rannsókn á fjármálum sveitarfélagsins eða eitthvað annað í þeim dúr en hins vegar verður í því sambandi að hafa í huga að sveitarstjórnin hefur aldrei tilkynnt nefndinni um fjárþröng eins og skylt er samkvæmt sveitarstjórnarlögum ef um slíkt er að ræða,“ sagði Ólöf um ábyrgð eftirlitsnefndarinnar.

Sveitarfélögin beri sjálf ábyrgð á sínum fjármálum enda sé það verkefni þeirra að lögum að gera það. Nú sé Reykjanesbær að vinna sína vinnu á grundvelli samkomulags við eftirlitsnefndina. Ólöf sagðist eiga von á að niðurstöðu hennar verði skilað til eftirlitsnefndarinnar í mars eða apríl og þá fáist betri mynd af stöðunni.

Ljóst sé að margt þurfi að spila inn í til að það náist að rétta úr fjárhagsvanda Reykjanesbæjar. Til þess að veruleg breyting verði á afkomu bæjarins þurfi að auka atvinnutækifæri þar. Horfa þyrfti víðar í því samhengi en til þess sem innanríkisráðuneytið gæti gert.

Hvatt til að halda út í fenið aftur

Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon, þingmenn Vinstri grænna, bentu báðir á einkavæðingu og útvistunarstefnu sem orsakir þeirrar fjárhagsstöðu sem Reykjanesbær er í. Ögmundur benti í þessu samhengi á tillögur Viðskiptaráðs um að hið opinberra seldi eignir fyrir hundruð milljóna króna og stæði fyrir einkavæðingu, sérstaklega í orkugeiranum.

Nákvæmlega þetta hafi bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ gert. Þau hafi selt eignir sínar án þess að leggja andvirðið fyrir til síðari tíma og leigðu svo til baka með ærnum tilkostnaði. Þá þekki allir hörmulega sögu einkavæðingar Hitaveitu Suðurnesja.

„Nú er aftur verið að hvetja til þess að haldið sé út í fenið samkvæmt þessari gömlu forskrift Viðskiptaráðs Íslands. Þetta dæmi er til að læra af fyrir okkur öll, ekki bara fyrir Reyknesinga,“ sagði Ögmundur.

Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, (t.h.) á þingi.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, (t.h.) á þingi. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert