Vindur þeytti bílnum út af veginum

Einn af bílum björgunarsveitarinnar Kjalar á Kjalarnesi er að öllum líkindum ónýtur eftir að vindhviða þeytti honum út af Hvalfjarðarvegi í gærkvöldi. Þrír björgunarmenn voru í bílnum en þeir voru í eftirlitsferð á svæðinu að beiðni lögreglu vegna veðurs. Mennirnir eru ómeiddir en nokkuð brugðið.

Brynjar Már Bjarnason, formaður sveitarinnar, segir í samtali við mbl.is að björgunarmennirnir hafi verið á ferðinni um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Afar hvasst var á svæðinu og mikil hálka á veginum.

Ákveðið var að snúa við rétt innan af Tíðaskarði á Hvalfjarðarvegi vegna veðurs og var bíllinn nánast stopp þegar kröftug vindhviða honum út af veginum. Bíllinn er um fjögur og hálft tonn og því er að ljóst að verulega hvasst hefur verið á svæðinu. Kastaðist bíllinn fyrst á toppinn og síðan á hliðina.

Björgunarmenn á öðrum björgunarsveitarbíl komu mönnunum til bjargar en Brynjar Már segist efast um að sjúkrabíll hefði getað komið á vettvang vegna veðurs, þ.e. ef þörft hefði verið á honum.

Ekki er vitað hvort bíllinn fáist bættur. „Þetta er gríðarlegt högg fyrir svona litla sveit,“ segir Brynjar Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert