Ef ríkið byggir skaðabótakröfu sína á því að það hafi talið Kaupþing banka traustari en ella vegna kaupa Al-Thani á bréfum í honum og þess vegna veitt honum neyðarlán gildir það sama um almenning, eða fyrirtæki eða hvern sem er. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð var í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar í morgun þar sem hann meðal annars ræddi um Al-Thani-málið. Hann var meðal annars spurður að því hvers vegna símtal Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, um neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings hafi ekki verið birt. „Eftir því sem mér skilst leiðir það ekkert sérstakt í ljós,“ sagði Sigmundur meðal annars en tók fram að hann hafi ekki heyrt símtalið.
„Þarna voru bankar víða um heim að falla eins og dómínókubbar og rétt eins og í öðrum löndum var veitt lán til að reyna halda bankanum gangandi,“ sagði Sigmundur. Hann tók hins vegar fram að verði gerð rannsókn á því hvort skaðabótaskylda hafi myndast með dómnum í Al-Thani-málínu muni ekki standa á því að veittur verði aðgangur að umræddu símtali. Réttur manna til að ekki séu birtar upptökur sem þeir vita ekki af eigi ekki að koma í veg fyrir það.