„Það er gamaldags andi yfir þessu flugi, sem við þekktum frá tíma kalda stríðsins,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, um flug tveggja rússneskra sprengjuflugvéla við landið. Hann lítur ekki svo á að um ögrun sé að ræða af hálfu Rússa en hefði kosið að vita af fluginu fyrirfram.
Greint var frá því fyrr í dag að tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-95 flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands upp úr hádegi í gær. Rússneskar herflugvélar hafa ekki flogið svo nærri landinu frá brotthvarfi bandaríska hersins, en sprengjuvélarnar flugu tvisvar framhjá landinu, í síðara skiptið mjög nálægt ströndum Íslands og voru þær í 26 sjómílna fjarlægð frá Stokksnesi þegar næst var.
Frétt mbl.is: Rússneskar sprengjuflugvélar við Ísland
Gunnar Bragi segir í segir í samtali við mbl.is að mikilvægt sé að hafa í huga að með flugi sínu hafi lofthelgi Íslands ekki verið rofin. „Þær flugur vissulega inn á svæði sem við skilgreinum sem okkar loftrýmiseftirlitssvæði en lofthelgin var aldrei rofin. Það er því ekkert sem bendir til þess að Rússar hafi brotið alþjóðalög. En þetta er hins vegar eitthvað sem við kjósum ða vita af þegar slíkar flugvélar eru í flugi við landið.“
Ráðherrann hyggst ekki kalla rússneska sendiherrann formlega til fundar við sig vegna málsins og segir hann að Rússar þekki vel afstöðu Íslands. „Þetta er eitthvað sem hefur gerst áður og við kjósum að þeir láti okkur vita þegar þeir fara í slíka leiðangra. En þetta sýnir einnig mikilvægi ratsjárkerfisins sem Landhelgisgæslan rekur af miklum sóma. Það virkar og auðséð að það borgar sig að við höfum eftirlit með loftrými okkar.“
Ennfremur segir Gunnar Bragi að þetta sýni fram á mikilvægi loftrýmisgæslunnar og styrki trú hans á því að meira mætti vera um að vinaþjóðir Íslands sinni henni.
Eftirlit Landhelgisgæslunnar með flugi rússnesku sprengjuflugvélanna er hluti af framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins sem Ísland er aðili að og á sér stað allt árið um kring. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar starfa í stjórnstöðinni í Keflavík og sinna eftirlitinu fyrir hönd Íslands.