Efnahagsbati á Íslandi eftir kreppuna er meðal annars því að þakka að Íslendingar hafi ekki hlustað á ráðleggingar alþjóðastofnana, sérstaklega framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðhaldsaðgerðir. Þetta hefur spænska blaðið El País eftir forseta Íslands sem staddur er á Spáni.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hélt erindi í viðskiptaskóla í Barcelona í dag þar sem hann er staddur í tilefni Íslandsdaga sem haldnir eru í borginni. Að erindinu loknu ræddi hann við blaðamenn. Þar mælti hann með því að fulltrúar Evrópusambandsins drægi ályktanir sínar um kreppuna og viðreisn af Íslandi þar sem menn hafi fundið jafnvægi á milli „lýðræðis“ og „efnahagslegra hagsmuna“.
Landsmenn ættu ekki að þurfa að þola harðar niðurskurðaraðgerðir. Frekari ætti að fara blandaða leið eins og á Íslandi þar sem endursamið var um skuldir og gengi fellt.
Þá sagði hann að fulltrúar ESB hafi farið rangt að með Grikkland. „Af hverju ættu þeir þá að hafa rétt fyrir sér í öðrum tilfellum?“ sagði hann við blaðamennina.
Um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu sagði forsetinn að hún væri ekki gleymd enda væri hluti af þjóðinni sem vildi ganga í það. Sagði forsetinn að Íslendingar myndu aldrei samþykkja yfirráð ESB í fiskveiðimálum.
Frétt El País af heimsókn forseta Íslands til Barcelona