Árleg Góðgerðarvika Verzlunarskóla Íslands stendur nú yfir, en þá stendur góðgerðarráð skólans fyrir ýmsum fjáröflunum til styrktar ABC barnahjálpar. Vignir Heiðarsson fékk þá áskorun að ganga frá Mosfellsbæ að Verzlunarskólanum í stubbabúningi, og hittum við á hann á leiðinni þar sem hann var veðurbarinn en hinn hressasti.
Góðgerðarráð Verzlunarskólans ákvað í ár að halda áfram samstarfi við ABC barnahjálp við áframhaldandi viðhald og stuðning við lítið skólaþorp í Úganda. Fyrir áramót hafði nefndin hjálpað við byggingu á grunnskóla í Kenýa og þá hefur verið ákveðið að gefa hagnaðinn af stökum sölum til stofnanna hér á landi. Fjöldi áheita barst í vikunni, og hefur fjáröflunin gengið vonum framar að sögn nefndarmeðlima ráðsins sem segja hátt í milljón hafa safnast.