Vetrarfrí var gefið í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar í dag og í gær og þá er einnig skipulagsdagur í mörgum leikskólum í dag. Yfirskrift vetrarfrísins er „Fjölskyldan saman í vetrarfríinu“ en ljóst er að margir foreldrar geta ekki tekið frí með börnum sínum. Einhverjir bregða á það ráð að fá pössun fyrir börnin en aðrir taka þau með í vinnuna.
„Vetrarfríið hefur alltaf verið ákveðið vandamál. Það kemur á tíma þar sem oft er mikið að gera í fyrirtækjum og í staðinn fyrir að búa til ánægjulegar samverustundir með fjölskyldunni, eins og er vafalaust markmiðið, þá býr þetta í ýmsum tilvikum til stress, vesen og leiðindi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við mbl.is.
Ólafur segir að aldrei hafi verið haft samráð við atvinnulífið um þessa ráðstöfun, þ.e. að hafa vetrarfrí.
„Að sjálfsögðu eiga sumir þennan möguleika, að taka sér frí, en í öðrum tilvikum er þetta oft erfiður tími. Þegar svona er, þegar allar stofnanir borgarinnar sem sinna börnum loka á sama tíma er ekki hægt að dreifa frítöku, þá verða einhverjir að sinna verkefnunum og geta fyrir vikið ekki verið með börnunum sínum.“
Eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag var þingfundur Alþingis færður til þannig að þingmenn gætu verið með börnum sínum í vetrarfríinu. Það er hins vegar ekki algengt að heilu vinnustaðirnir séu svo sveigjanlegir.
Frétt mbl.is: Þingmenn fengu vetrarfrí
Eins og áður sagði bregða einhverjir á það ráð að taka börnin með í vinnuna og segir Ólafur að vissulega felist ákveðin truflun í því. „Það er kannski heldur ekkert ofsalega skemmtilegt fyrir börn að hanga með foreldrum sínum á vinnustað allan daginn,“ segir Ólafur. „Það eru ekki allir svo heppnir að eiga heimavinnandi afa eða ömmu."
Aðspurður segir Ólafur að Félag atvinnurekenda hafi ekki gert úttekt á því hversu margir taka frí þessa daga eða hvaða áhrif vetrarfríið hefur á atvinnulífið.