Nýja vinnumatið í framhaldsskólum sem félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda greiða atkvæði um í næstu viku er umdeilt meðal framhaldsskólakennara.
Baldur J. Baldursson, kennari og trúnaðarmaður í Tækniskólanum, gagnrýnir vinnumatið harðlega og segir það vægast sagt umdeilt meðal framhaldsskólakennara. Það hafi valdið klofningi í stéttarfélaginu og heldur hann því fram að ekki sé meirihluti fyrir vinnumatinu í aðal- og varastjórn FF. Þá fari heitar umræður fram í tveimur lokuðum hópum á facebook um málið.
Baldur segir að samþykkt vinnumatsins muni gefa framhaldsskólakennurum 9,3% taxtahækkun, en fyrir tilstilli flókins reikniverks að baki vinnumatinu muni vinnukrafa innan fulls starfs kennara verða lækkuð hjá þeim sem teljast búa við „vinnuþunga“ áfanga en hækkuð á móti hjá þeim sem eru álitnir hafa „vinnulétta“ áfanga.