Veikir samningsstöðu Landsvirkjunar

Dæmi eru um að orkusölusamningar Landsvirkjunar hafi ekki náð fram …
Dæmi eru um að orkusölusamningar Landsvirkjunar hafi ekki náð fram að ganga vegna takmarkana í flutningskerfi raforku. mbl.is/Þorvaldur Örn

Landsvirkjun getur að óbreyttu eingöngu samið um orkusölu yfir 10 MW til tveggja svæða á landinu, Suðvesturlands og hluta af Norðurlandi vestra. Annars staðar á landinu er ekki mögulegt að afhenda raforku í þessu magni. Dæmi eru um að orkusölusamningar fyrirtækisins hafi ekki náð fram að ganga af þessum sökum.

Þetta kom fram í máli Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, á aðalfundi Samorku í dag.

Hann sagði að uppbygging flutningakerfis raforku, sem rætt var um á fundinum, hefði ekki verið í takt við uppbyggingu virkjana. Frekari uppbygging virkjanakerfisins myndi aðeins gera stöðuna enn viðkvæmari og ef ekkert yrði að gert myndi ástandið einungis versna.

Fram kom í máli Óla Grétars að þetta veika flutningskerfi leiddi til þess að virkjaðar auðlindir væru ekki nýttar til fulls. Flutningskerfið takmarkaði með beinum hætti vinnslugetu Landsvirkjunar um allt að 100 Gwh. „Bein neikvæð áhrif flutningakerfisins eru að þau hamla samkeppni,“ sagði hann enn fremur og bætti við að þau ykju áhættuna á bilanatilfellum.

Eins væri þróun nýrra virkjanakosta mjög erfið að því leyti að torvelt væri að flytja orkuna frá nýjum virkjunum. Best væri að staðsetja virkjanir á suðvesturhorni landsins til að tryggja afhendingaröryggi.

Óli Grétar sagði að álagið á kerfið hefði aukist með aukinni raforkunotkun, á Austurlandi og Norðausturlandi. Þróunin hefði verið í þá átt. „Öll þessi þróun kallar á að við getum stjórnað flutningi á milli landshluta. Við þurfum að geta flutt vatnsorkuna á milli landshluta á einhvern hátt.“ Samkeppni um flutninginn hefði stóraukist og raforkukerfið væri við núverandi aðstæður rekið við ystu mörk.

„Ég er ekki viss um að þetta sé sú leið sem við viljum fara í svona litlu landi,“ sagði hann.

Hann bætti við að viðskiptavinir Landsvirkjunar ættu erfitt með að stækka við sig vegna takmarkananna í flutningskerfinu. Sumir samningar hefðu ekki náð fram að ganga af þessum ástæðum. „Allar þessar takmarkanir í dag gera jafnframt nýja samninga erfiða,“ sagði Óli Grétar að nefndi að samningsstaða Landsvirkjunar væri fyrir vikið mun veikari.

Frétt mbl.is: Brýnt að styrkja raforkukerfið

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar.
Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert