Vildu láta handtaka Odee

Oddur Eysteinn Friðriksson notar listamannanafnið Odee.
Oddur Eysteinn Friðriksson notar listamannanafnið Odee. mbl.is

Tölvudeild Alcoa á heimsvísu lokaði á heimasíðu listamannsins Odee innan tölvukerfis Alcoa. Ástæða lokunarinnar var að síðan væri „Obscene/Tasteless“ eða smekklaus og dónaleg eins og það útréttast á íslensku. Ástæðan hefur líklega verið að fáklæddar konur má finna í sumum verkum Odee. Lokun tölvudeildarinnar á síðu Odee vakti nokkra kátínu innan fyrirtækisins en Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, starfar hjá Fjarðaáli og prýðir hann forsíðu Álpappírsins, starfsmannablaðs Alcoa á Íslandi og er í stóru viðtali í blaðinu.

Aðspurður telur Oddur að lokun tölvudeildarinnar hafi gerst sjálfkrafa en í samtali við mbl.is segir hann að búið sé að opna fyrir síðuna aftur í tölvum fyrirtækisins. Gefur hann lítið fyrir lokunina í ljósi þess hve mikinn stuðning hann hefur fengið hjá fyrirtækinu hérlendis. Hann hafi verið með sýningu á verkum sínum í Fjarðaáli á sama tíma og síða hans var ekki aðgengileg í tölvum fyrirtækisins sem þótti nokkuð skondið.

Viðbrögðin voru ekki góð í fyrstu

Þegar blaðamaður mbl.is spyr, í ljósi þess á hve skömmum tíma Odee tókst að skapa sér nafn hérlendis, hvort þessi góðu fyrstu viðbrögð við verkum hans hafi komið honum á óvart við fyrstu skref hans í listinni segir hann viðbrögðin ekki hafa verið góð í fyrstu.

Hann setti verk eftir sig inn á erlenda listasíðu og segir hann að um þúsund manns hafi gert athugasemd við verk hans, þar af nánast öll neikvæð.

Höfðu notendur síðunnar þá mikið á móti þeim stíl sem Odee hefur á verkum sínum en hann býr til klippi­mynd­ir sem hann læt­ur brenna á ál til að ná fram sér­stakri áferð og fá bjarma í lit­ina. Klippimyndirnar sækir Odee víða, meðal annars má sjá vörumerkið Coca Cola bregða reglulega fyrir í verkum hans, og voru notendur síðunnar þeirrar skoðunar að Odee væri að nýta sér höfundaréttarvarið efni við list sína og vakti það því hörð viðbrögð á síðunni. 

Gengu nokkrir notendur síðunnar svo langt að hringja í lögregluna á Eskifirði og kröfðust þess að Oddur yrði handtekinn. Um var að ræða erlenda aðila, frá Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum, og höfðu þeir engra hagsmuna að gæta, segir Oddur. Voru þeir einstaklingar sem hringdu einfaldlega ósáttir við listform Odds og voru þeirrar skoðunar að hann mætti ekki nota annað höfundaréttarvarið efni í klippimyndir við listina.

Oddur gefur sjálfur ekki mikið fyrir þá gagnrýni sem hann fékk á sig í fyrstu. Hann segist ekki ætla að láta höfundarétt á vörumerkjum stoppa sig frá því að gera eitthvað nýtt og spennandi. Hann tekur þó fram að hann sé alls ekki á móti höfundarétti í þeim skilningi að verk séu endurbirt þar sem annar einstaklingur eignar sér heiðurinn að öðrum verkum. Í hans tilfelli sé það alls ekki raunin, heldur notast hann einfaldlega við ýmist efni sem hann klippir saman í eina heild.

Hækkaði verð til þess að fá vinnufrið

Eftirspurn eftir verkum Odds hefur farið vaxandi frá fyrsta degi. Hann segir að á ákveðnum tímapunkti hafi hann einfaldlega þurft að hækka verð hjá sér þar sem hann náði ekki að anna eftirspurn lengur. Segist hann frekar vilja gera færri verk, þar sem hvert og eitt er einstakt, heldur en að fara sömu leið og margir listamenn hafa farið og fjöldaframleitt þau verk sem seljist vel.

Hann er mjög þakklátur þeim stuðningi sem hann hefur fengið hjá Fjarðaáli. Hann hefur sveigjanlegan vinnutíma og því geti hann valið á milli þeirra verkefna sem hann tekur að sér. Hann segist vera með stórt verkefni á döfinni og hefur hann rætt við forsvarsmenn Fjarðaáls um að koma að því verkefni með sér. 

Heimasíðu Odee, sem tölvudeild Alcoa lokaði á, má finna hér.

Shishigami er eitt listaverka Odee.
Shishigami er eitt listaverka Odee. mbl.is
Odee býr til klippi­mynd­ir sem hann læt­ur brenna á ál …
Odee býr til klippi­mynd­ir sem hann læt­ur brenna á ál til að ná fram sér­stakri áferð og fá bjarma í lit­ina. mbl.is
OD-EE.
OD-EE. mbl.is
Samurah.
Samurah. mbl.is
Oddur Eysteinn Friðriksson, Odee.
Oddur Eysteinn Friðriksson, Odee. mbl.is
mbl.is
mbl.is
Verk Odee til sýnis á húsvegg.
Verk Odee til sýnis á húsvegg. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert