Már Guðmundsson seðlabankastjóri hyggst láta vinna opinbera skýrslu um tildrög og eftirmál lánveitingar Seðlabanka Íslands til Kaupþings skömmu fyrir fall bankans haustið 2008.
Í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í kvöld sagði hann það jafnframt vera á hreinu að ábyrgð á lánveitingu, líkt og þeirri sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi, hvíldi alfarið á herðum bankans.
Fram kom í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær, þar sem aðdraganda lánsins er lýst, að það hefði verið vilji ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán skömmu fyrir fall bankans 2008, en ekki Seðlabankans.
„Það er alveg klárt, í 7. grein seðlabankalaganna, að það er Seðlabankinn sem tekur þessar ákvarðanir og hann verður að gera það á ákveðnum forsendum, að hann telji að þetta sé nauðsynlegt til að verja fjármálakerfi landsins,“ sagði Már og bætti við að seðlabankastjórinn þáverandi gæti ekki skotið sér undan ábyrgð á slíkri lánveitingu.
Frétt mbl.is: Segir skýringarnar „mótsagnakenndar“
Frétt mbl.is: Ríkisstjórnin veitti Kaupþingi lánið