Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spyr hvar það standi í lögum að Seðlabanki Íslands geti ákveðið einhliða að afsala sér ákvörðunarvaldi við lánveitingar. Hann segir ekkert í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í gær standast efnislega skoðun.
„Mótsagnakenndar eftiráskýringar“ geti aldrei verið til vitnis um nokkurn skapaðan hlut, „nema krampakenndar tilraunir til að sleppa við ábyrgð á eigin gerðum,“ segir Árni Páll.
Fram kom í Reykjavíkurbréfinu, þar sem aðdraganda lánsins er lýst, að það hafi verið vilji ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að veita Kaupþingi 500 milljóna evra lán skömmu fyrir fall bankans 2008 en ekki Seðlabankans.
Rúv greindi frá því í kvöldfréttum í gær að lánveiting Seðlabankans hefði verið aðgerð bankans og ekki háð samráði við ráðherra. Var þar vitnað í bréf Seðlabankans til fjárlaganefndar Alþingis árið 2013, þar sem segir að um hafi verið „að ræða aðgerð af hálfu Seðlabankans, sem hvorki nú né þegar atvik gerðust, er háð samráði við ráðherra, þó svo að slíkt geti í einhverjum tilvikum talist eðlilegt að sé gert.“
Lán Seðlabankans til Kaupþings hefur komið aftur til umræðu eftir að dómur féll í Al Thani-málinu í Hæstarétti á dögunum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talaði um að hann væri þeirrar skoðunar að ríkissjóður ætti að kanna hvort að hann ætti bótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings þar sem 500 milljóna evra lán sem Seðlabankinn veitti bankanum hafi átt sér stað um sama leyti og brotin í málinu voru framin.
Árni Páll segir Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, víkja sér undan ábyrgð á lánveitingunni til Kaupþings „með nýrri kenningu um að seðlabankastjórunum hafi þótt eðlilegt að vilji ríkisstjórnarinnar réði.
Af hverju? Hvar stendur það í lögum að Seðlabankinn geti ákveðið einhliða að afsala sér ákvörðunarvaldi með þessum hætti? Getur maður ákveðið að vera bara stundum seðlabankastjóri, en vísa ábyrgð annað að vild?“ spyr Árni Páll meðal annars.
Frétt mbl.is: Ríkisstjórnin veitti Kaupþingi lánið