Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir tveimur hælisleitendum. Annar þeirra sagðist við skýrslutöku hjá lögreglu styðja íslamska ríkið og vilja taka þátt í stríði fyrir guð.
Í dómi Hæstaréttar segir að maðurinn hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Hins vegar hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ekki reynt vægari úrræði en gæsluvarðhald og sé því kröfu hans hafnað. Ekki megi beita útlending varðhaldi nema að það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og að því verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Í tilvikum eins og því sem hér um ræðir geti lögregla lagt fyrir viðkomandi útlending að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með „afmörkuðu svæði“ sé til dæmis átt við tiltekinn bæjarhluta, gistiheimili eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem um ræði. Til þessa úrræðis hefur ekki verið gripið af hálfu lögreglustjórans í máli þessu og var gæsluvarðhaldi því hafnað.
Í úrskurði héraðsdóms segir: „Varnaraðili hefur á köflum sýnt af sér ógnandi hegðun og tilburði í þá átt að skaða sjálfan sig, eins og rakið er í greinargerð sóknaraðila. Þá bendir skýrslutaka af honum til þess að hann sé í nokkru andlegu ójafnvægi, auk þess sem hann virðist sækja í myndefni á internetinu sem tengist ógnarverkum hryðjuverkasamtaka bókstafstrúarmanna.“
Aðspurður hjá lögreglu hvort að hann styddi aðferðir ISIS hryðjuverkasamtakanna hafi hann sagst elska samtökin, þau væru ekki fyrir stríð og ekki fyrir pyntingar. Þá sagðist hann vilja taka þátt í stríði fyrir guð.
„Fram kemur í greinargerðinni að lögregla hafi fengið heimild barnaverndar til þess að spegla tölvu í eigu barnaverndar sem kærði, X, hafi notað meðan hann hafi verið vistaður hjá þeim og sé ljóst af þeirri skoðun að hann hafi verið að skoða mikið af efni sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu og Boko Haram, m.a. þar sem sjá megi aftökur á fólki,“ segir í úrskurði héraðsdóms.
Samkvæmt framburði starfsmanns útlendingastofnunar og túlki á fundinum viðhafði maðurinn hótanir um að sprengja þúsund manns í loft upp ef hann yrði sendur frá Íslandi.
Frétt mbl.is: Vilja fá hælisleitendur framselda