Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt 16 ára gamlan unglingspilt fyrir kynferðisbrot og kynferðislega áreitni gagnvart unglingsstúlkum, en þær voru 14 ára gamlar þegar brotin voru framin. Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur honum 22. desember sl.
Ákvörðun refsingar piltsins, sem er barn í skilningi laganna, var hins vegar frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins.
Pilturinn er jafnframt dæmdur til að greiða 75.000 krónur í miskabætur og 389.000 krónur í sakarkostnað.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að pilturinn hafi verið 15 ára þegar hann framdi brotin en samkvæmt 14. og 18. gr. almennra hegningarlaga uppfylli hann saknæmisskilyrði og sé sakhæfur.
Þá kom fram, að við alla meðferð málsins hafi pilturinn játað skýlaust brot sín og skýrt hreinskilnislega frá. Fyrir dómi lýsti hann jafnframt yfir iðran og að hann hefði haft vilja til að biðja brotaþola afsökunar á framferði sínu, en verið ráðlagt að hafa ekki samband við þær á meðan málið væri enn óútkljáð hjá lögreglu og ákæruvaldi.
Í dómnum segir, að með hliðsjón af alvarleika brotanna komi að áliti dómsins ekki til álita að láta refsingu piltsins niður falla. Hins vegar beri við ákvörðun refsingar hans að líta m.a. til ungs aldurs og skýlausrar játningar. Einnig að hann hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.