Geir Haarde, sendiherra Íslands í Washington, afhenti Barack Obama Bandaríkjaforseta, trúnaðarbréf sitt í Hvíta húsinu í gær.
Í samtali við mbl.is fyrir áramót sagði Geir: „Þetta leggst mjög vel í mig. Ég þekki vel til í Bandaríkjunum og bjó þar sem námsmaður í mörg ár og þar á meðal í tvö ár í Washington. Þetta er mjög spennandi verkefni og auðvitað heilmargt að gera í þessu starfi enda mikilvægt að halda uppi öflugri hagsmunagæslu gagnvart Bandaríkjunum sem eru okkar mikilvægasta vinaríki.“
Frétt mbl.is: „Þetta leggst mjög vel í mig“
Geir tók um síðustu áramót við embætti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum með aðsetur í Washington. „Verkefnin eru auðvitað fjölbreytt. Þau tengjast stjórnmálatengslum og varnarmálum, viðskiptum, mennta- og menningarmálum og ýmsum fleiru.“ Stefna núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gengur meðal annars út á að efla tengslin við Bandaríkin og sagðist Geir aðspurður sammála því að rík ástæða væri til þess.
„Ég hef frá því að ég var í námi þarna fyrir löngu haldið tengslum við marga. Bæði fólk sem er enn starfandi í stjórnsýslunni, í háskólum og viðskiptalífinu og slík sambönd geta komið sér vel í þessu starfi. Þarna er um að ræða tengsl sem hafa byggst upp á löngum tíma,“ sagði Geir.