Hleruðu síma vændiskonu

Maðurinn samþykkti að greiða 25 þúsund fyrir nudd sem fól …
Maðurinn samþykkti að greiða 25 þúsund fyrir nudd sem fól í sér ánægjulegar lyktir.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til að greiða 200 þúsund krónur í sekt fyrir vændiskaup. Lögregla komst á snoðir um viðskiptin þar sem hún hleraði síma vændiskonunnar. Maðurinn neitaði hins vegar sök og sagðist hafa verið að leita eftir hefðbundinni nuddþjónustu.

Rannsóknin á vændinu stóð yfir í nokkur ár en vændiskonan kom hingað til lands í ríflega 30 skipti árið 2008 og dvaldi í leiguíbúðum í miðborg Reykjavíkur í um tvær til þrjár vikur í senn. Umtalsverðir fjármunir voru lagðir inn á reikning hennar og sendir úr landi með færslum í hennar nafni.

Lögregla komst á snoðir um að hún væri væntanleg til landsins í maí 2013 og fékk þá úrskurð dómara til að hlera síma með númerum sem voru gefin upp í auglýsingum í dagblöðum og netsíðum. Eftir að hafa hlustað á samtöl konunnar allt sumarið var vændiskonan handtekin 29. ágúst 2013 og úrskurðuð í gæsluvarðhald og síðar farbann. Hún neitaði alfarið sök og hvarf af landi brott eftir að farbannið rann út.

Í málinu lágu fyrir upptökur af þremur símtölum á milli vændiskonunnar og mannsins sem dæmdur var í dag til sektargreiðslu. Maðurinn spyr fyrst um nudd og segir konan að nuddið kostið 25 þúsund krónur. Maðurinn segir það töluvert hærri upphæð en hann bjóst við en þá segir konan að nuddið hafi í för með sér ánægjulegar lyktir.

Maðurinn spyr þá hvort hann megi snerta konuna og konan samþykkir það.

Fyrir dómi neitaði maðurinn sök og sagðist ekki hafa greitt fyrir vændi. Hann sagðist hafa hitt konuna en þá séð að hún var ekki hefðbundinn nuddari, hún hefði verið fáklædd og enginn nuddbekkur sjáanlegur. Hann hafi því horfið á brott.

Héraðsdómari taldi háttsemina sannaða enda fari ekki á milli mála í samtali þeirra í símanum að konan hafi verið að bjóða kynlífsþjónustu. „Samkvæmt framansögðu telst sannað að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru. Var brotið fullframið er hann samþykkti að greiða konunni 25.000 krónur fyrir að hafa við sig kynferðismök.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert