Hryðjuverkamenn fara um Ísland

Meðlimir Ríkis íslams ásamt jórdönskum fanga.
Meðlimir Ríkis íslams ásamt jórdönskum fanga. AFP

Ekki er hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum hér á landi vegna ástands innandlands eða í heimsmálum og er hættustig á Íslandi því metið í meðallagi. Þetta kemur fram í nýju mati Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra á hryðjuverkahættu hér á landi en þar segir einnig að greiningardeildin búi yfir upplýsingum um að Ísland hafi verið notað sem „gegnumstreymisland“ manna frá Norður-Ameríku á leið til og frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslams.

 „„Gegnumstreymi“ þarf ekki að þýða aukna hættu á hryðjuverkum hér á landi en vissulega er sú hætta til staðar,“ segir í matinu. Þar segir jafnframt að ástæða sé til að ætla að slíkt „gegnumstreymi“ haldi áfram þar sem gert sé ráð fyrir að hernaðaraðgerðir gegn Ríki íslams með aðkomu vestrænna þjóða muni standa í langan tíma.

 „Því telst viðvarandi hætta á að slíkt „gegnumstreymi“ hryðjuverkamanna fari fram um Ísland. Að mati greiningardeildar kallar þessi staðreynd ein og sér á aukinn viðbúnað á Íslandi hvað landamæraeftirlit og upplýsingaöflun um ferðir slíkra aðila varðar. Þá verður að hafa í huga að á Íslandi er að finna erlend skotmörk svo sem sendiráð.“

 Rannsóknarheimildir takmarkaðar

Tekið er fram í matinu að Greiningardeild Ríkislögreglustjóra býr ekki yfir upplýsingum um að hryðjuverk gegn Íslandi séu í undirbúningi. Vegna takmarkaðra rannsóknarheimilda skorti upplýsingar til að leggja mat á mögulega ógn og því séu greiningar ónákvæmari en ella sem um leið feli í sér meiri áhættu fyrir samfélagið.

„Ef lögreglan fær ekki upplýsingar getur það leitt til þess að ekki er hægt að bregðast við og koma í veg fyrir voðaverk. Af þessu leiðir að skortur á upplýsingum er veikleiki sem fallinn er til að auka áhættu,“ segir í matinu.

Greiningardeildin tiltekur Ríki íslams og Al-Kaída sérstaklega upp sem helstu ógnina við Vesturlönd og þar með Ísland. Hún segir það samdóma mat öryggisstofnana á Vesturlöndum að raunveruleg hætta sé á að fólk sem heillast af málflutningi liðsmanna samtaka á borð við Ríki íslams, oftar en ekki um internetið, reynist reiðubúið að fremja ódæðisverk í nafni samtakanna þó svo viðkomandi hafi ekki tekið þátt í bardögum undir fána Ríkis íslams í Mið-Austurlöndum.

„Þetta mat hefur reynst rétt eins og atburðirnir í Frakklandi, Belgíu og Danmörku eru til vitnis um,“ segir í matinu. „Með vísun til þess að fjöldi manna frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hefur haldið til Mið-Austurlanda í því skyni að berjast þar í nafni Ríkis íslams verður á engan veg útilokað að fólk búsett á Íslandi sé reiðubúið að gera hið sama.“

Greiningardeildin telur hættu stafa af ferðum hryðjuverkamanna um landið.
Greiningardeildin telur hættu stafa af ferðum hryðjuverkamanna um landið. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka