Komi upp móttökumiðstöð hælisleitenda

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar

Grunnhugmyndin að baki endurskoðun laga um útlendinga sem nú fer fram hjá innanríkisráðuneytinu er að komið verði á fót móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur. Þar verði hægt að skilja að venjulegt fólk sem kemur úr erfiðum aðstæðum og það sem hætta stafar af, að sögn Ólafar Nordal, innanríkisráðherra.

Til stendur að framselja tvo hælisleitendur sem komu hingað til lands í janúar en þeir höfðu áður óskað hælis í Danmörku. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald yfir þeim þar sem hætta var talin stafa af þeim. Annar mannanna hafði meðal annars lýst aðdáun sinni á Íslamska ríkinu. Hæstiréttur hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni. Mennirnir eru nú undir eftirliti lögreglu án þess að frelsi þeirra sé þó skert.

Fyrstu viðbrögð yfirvalda við því þegar hælisleitendur koma til landsins hafa verið til athugunar hjá innanríkisráðuneytinu um nokkurt skeið en þar er einnig unnið að því að endurskoða lög um útlendinga.

Ólöf segir það mikilvægt að greiningarvinna um það fólk sem hingað kemur og aðstæður þess fari strax í gang við komuna til landsins, bæði fyrir öryggi þess og samfélagsins í heild. Sérstök úrræði verði til staðar fyrir þá sem ógn geti stafað af.

„Það er mjög mikilvægt að sú greining fari fram strax. Við erum núna að skoða það hvernig við getum komið þessum hlutum öllum í betra ferli hjá okkur. Upp til hópa er þetta náttúrulega venjulegt fólk sem kemur úr erfiðum aðstæðum en inn á milli geta verið einstaklingar sem eru hættulegir. Við verðum alltaf að gæta að samspili þess og öryggis í landinu,“ segir hún.

Ekki sé til neinn sérstakur móttökustaðar þar sem tekið er á móti hælisleitendum hér á landi og aðstæður þeirra metnar. Til skoðunar sé að koma slíkri miðstöð á laggirnar.

„Grunnhugmyndin hjá okkur sem ráðuneytið hefur unnið eftir núna er að við komuna til landsins verði einhvers konar innviði til sem menn hafa kallað móttökumiðstöð. Þar verði tekið á móti fólkinu og þar komi saman Útlendingastofnun, félagsráðgjafar og ríkislögreglustjóri,“ segir Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert