Þingsályktunartillaga um þjóðaröryggisstefnu er nánast tilbúin en ekki liggur fyrir hvenær hún verður lögð fram á Alþingi. Þetta kom fram í máli Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í umræðum í þinginu í dag þar sem hann ræddi málið við Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata. Byggt yrði á tillögum þverpólitískrar þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu sem skipuð var árið 2012 í tíð síðustu ríkisstjórnar.
„Ekki er gert ráð fyrir þjóðaröryggisdeild eða auknum valdheimildum lögreglu í þeirri stefnu enda er það kannski ekki heldur tilgangur hennar. Það er hins vegar efni í allt annars konar umræðu hvort þess sé þörf o.s.frv. En í megindráttum byggir tillagan á vinnu nefndarinnar, stuðst er við þær hugmyndir sem þar komu fram,“ sagði ráðherrann. Þá yrði einnig stefnt að stofnun þjóðaröryggisráðs í samræmi við tillögur nefndarinnar.