Tíu ára og stefnir á kokkalandsliðið

Róbert undirbýr kvöldmatinn uppi í bústað. Humar hvorki meira né …
Róbert undirbýr kvöldmatinn uppi í bústað. Humar hvorki meira né minna. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar

Þrátt fyrir að Róbert Leó Arnórsson sé aðeins tíu ára gamall, er hann mjög fær matreiðslumaður sem leggur mikinn metnað í eldamennskuna. Róbert heldur úti Instagramsíðunni Robbi eldar þar sem hann birtir myndir af einstaklega girnilegum mat sem hann hefur reitt fram.

„Þetta byrjaði þegar ég var fimm ára og gerði risastóra samloku. Svo byrjaði ég að taka myndir og fá meiri áhuga á eldamennsku og er búinn að gera þetta síðan,“ segir Róbert í samtali við mbl.is.

Eldaði fyrsta réttinn sjálfur 9 ára

Þegar hann varð 8 ára gamall fékk hann að taka þátt í eldamennskunni heima hjá sér og skera niður grænmeti. Níu ára gamall eldaði hann fyrsta réttinn sinn alveg sjálfur. Hann bjó til sína fyrstu uppskrift þegar hann var nýorðinn 10 ára og hélt 15 manna matarboð í afmælinu sínu þar sem hann eldaði þriggja rétta máltíð.

Róbert segist oft elda heima hjá sér, en hann fær hjálp af og til. Áhuginn hafi kviknað þegar hann fór að fylgjast með matreiðsluþáttum eins og MasterChef, og þá lesi hann einnig mikið af matreiðslubókum. Hann á 55 slíkar bækur, og er „Grillað með Jóa Fel“ í algjöru uppáhaldi.

„Þetta er bara hans hugarheimur“

„Þetta byrjaði smátt og fór svo að verða meira og meira. Hann byrjaði síðan að taka myndir af matnum og setja inn á Instagramsíðuna sína, en það var ekkert alltaf að falla í kramið hjá bekkjarsystkinunum. Við ræddum þetta og ákváðum að stofna sér síðu,“ segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, móðir Róberts.

Hún segir ákvörðunina hafa verið góða, enda séu allar matarmyndirnar hans núna á einum stað. „Okkur fannst líka gaman að geta séð þróunina í þessu hjá honum. Í kjölfar þess byrjaði hann líka að hafa áhuga á því hvernig hann bar matinn fram og vildi stilla honum fallega upp. Þetta er bara hans hugarheimur.“

Er alveg sama þó hann sé öðruvísi

Foreldrar Róberts eru mjög ánægðir með ástríðu hans fyrir matargerð, enda njóta þau góðs af og fá að borða allan þann gómsæta mat sem hann eldar. „Okkur finnst þetta frábært hjá honum. Það er rosalega gaman að eiga tíu ára gamlan dreng sem er kominn með skýra sýn á það hvað hann langar að gera þegar hann verður stór og er að vinna í því,“ segir Berglind.

„Honum er alveg sama þó hann sé öðruvísi en aðrir. Hann þurfti að komast yfir það en finnst það gaman í dag og krökkunum í kringum hann finnst þetta bara skemmtilegt.“

Dreymir um að komast í kokkalandsliðið

Róbert segist stefna að því að verða matreiðslumeistari þegar hann verður stór, og opna sinn eigin veitingastað. Þá segir hann drauminn vera að komast í kokkalandsliðið.

Aðspurður hver uppáhalds maturinn hans til að elda sé segir Róbert það vera lambakjöt.

Hægt er að fylgja Róberti á Instagram undir nafninu Robbi_eldar. Þá langar hann mikið að fá að sjá matreiðslumenn á veitingastöðum vinna, og segir Berglind allar ábendingar þess efnis vel þegnar. „Ef það skyldi opna á einhverjar dyr þá langar hann mikið að fá að kíkja á bakvið.“

Eins og öllum öðrum matreiðslumönnum sæmir á Róbert kokkabúning.
Eins og öllum öðrum matreiðslumönnum sæmir á Róbert kokkabúning. Ljósmynd/Úr einkasafni
Róbert eldaði kalkún á aðfangadag með hjálp frá föður sínum.
Róbert eldaði kalkún á aðfangadag með hjálp frá föður sínum. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar
Róbert bjó til kransaköku fyrir skírnarveislu.
Róbert bjó til kransaköku fyrir skírnarveislu. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar
Lambafille með sveppasósu, kartöflum og klettasalati.
Lambafille með sveppasósu, kartöflum og klettasalati. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar
Indversk kjúklingasúpa sem Róbert framreiddi.
Indversk kjúklingasúpa sem Róbert framreiddi. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar
Lasagna borið fram með hvítlauksbrauði.
Lasagna borið fram með hvítlauksbrauði. Ljósmynd/Instagram/Robbi_eldar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert