Píratar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að breyting verði gerð á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Í breytingunum felst að börn verði ekki sjálfkrafa skráð í trúfélög heldur geti þau skráð sig þegar þau eru orðin 13 ára gömul.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að lagðar séu til tvenns konar breytingar á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999. „Annars vegar er lagt til að börn geti tekið ákvörðun varðandi aðild sína að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálf á fjórtánda aldursári eða þegar þau eru orðin 13 ára í stað 16 ára aldurs. Hins vegar er lagt til að lagaáskilnaður um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög verði felldur úr lögunum.“